Tímarit Máls og menningar - 01.09.2015, Side 51
Þ v í m e i r a fa n n f e r g i þ v í m e i r a f j ö r
TMM 2015 · 3 51
vorum ekki að sóa tíma okkar í að ræða bókmenntir og heimspeki heldur
slúðruðum aðallega hvert um annað. Mér varð vel úr verki í Iowa og skemmti
mér ákaflega vel. Meðal annars fékk ég tækifæri til að dvelja í New Orleans
sem er býsna mögnuð borg.
***
Skáldsagan Regnbogi í póstinum kom út árið 1996, smásagnasafnið Eitruð
epli tveimur árum síðar, næsta skáldsaga Bátur með segli og allt árið 2004.
Þegar Eitruð epli kom út hafði ég verið í miklum smásagnagír. Ég hafði
verið að skrifa smásögur fyrir Tímarit Bjarts og frú Emilíu – eitthvað í loftinu
kallaði á smásögur. Það væri gaman að gefa út smásögur aftur, ég held ég eigi
fimm óbirtar. Ég lauk við eina um daginn byggða á minningu frá því ég var
unglingur og var að reyna að vera pönkari.
Fyrstu skáldsögu minni var vel tekið, það var mjög gaman að gefa hana
út, mikið af upplestrum og fjöri. Önnur skáldsaga mín, Bátur með segli og
allt, var síðasta bókin sem fékk Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness. Þetta
er fjölskyldusaga, um vantraust í fjölskyldu og á vinnustað. Ég fór einmitt til
Leipzig fyrir ári síðan til að kynna hana þar en hún kom út hjá bókaforlaginu
Ullstein í Þýskalandi fyrir stuttu.
Segðu mér frá bók sem hefur haft víðtæk áhrif og verður án efa klassík að
mínu viti, Myndin af pabba – Saga Thelmu (2005).
Í haust verða tíu ár liðin síðan hún kom út. Þegar leiðir okkar Thelmu
Ásdísardóttur lágu saman og við byrjuðum að undirbúa bókarskrifin áttum
við ekki von á því að bókin fengi alla þá athygli sem hún hefur notið. Hún
hefur verið í umræðunni nær allar götur frá því hún kom út. Þegar ég byrjaði
að skrifa Myndina af pabba var ég búin að lesa In Cold Blood eftir Truman
Capote, bók sem ég keypti í bókabúðinni Shakespeare and Company í
París, og sömuleiðis hafði ég lesið sjálfsævisögu Fay Weldon, Auto Da Fay.
Ég hugsaði með mér að það ætti að vera hægt að skrifa læsilega viðtalsbók
um Thelmu þótt hún segði frá skelfilegum atburðum. Bókin er nú notuð í
kennslu í félagsráðgjöf og lögfræði og hefur vonandi orðið til gagns. Það var
að minnsta kosti það sem við Thelma lögðum upp með.
Að hverju ertu að vinna um þessar mundir? Viltu ræða það?
Ég er með nokkur handrit í gangi, bæði fyrir börn og fullorðna. Síðan
hef ég verið að kenna fimmtu bekkingum ritlist. Í haust kemur út eftir mig
barnabókin Dúkka sem er með hryllingsívafi.
***