Tímarit Máls og menningar - 01.06.2016, Page 70
D a i s y N e i j m a n n
70 TMM 2016 · 2
sagan fjallaði um byggingarbólu, um það að nota hús og heimili til að sýna
og að stæra sig af, um samfélag þar sem allt snýst um yfirborðið – og tóm-
leikann undir yfirborðinu. Þeim fannst hún ekki aðeins nútímaleg heldur
líka mjög alþjóðleg: saga sem fjallar um afleiðingar efnishyggju og neyslu-
menningar – þannig gæti hún hafa verið skrifuð hvar sem er í vestrænum
heimi í dag. En þessi saga kom sem sagt út árið 1967. Sem segir okkur e.t.v.
tvennt: að nýtt ríkidæmi eftirstríðsáranna var ekki síður 1967 en 2007, og að
Svava hafði einstakt lag á að beina athygli að atriðum sem eru hvorki tíma-
né staðbundin heldur eiga enn erindi við okkur í dag – Íslendinga jafnt sem
aðrar þjóðir.
Sögupersónur Svövu eiga það til að líta til náttúrunnar til að gefa tilveru
sinni aftur merkingu og brúa bilið milli fortíðar og nútímans, borgarinnar
og sveitarinnar, eins og „Útsýnið“ og „Veizla undir grjótvegg“ eru góð dæmi
um: útsýnið í annarri sögunni og grjótvegginn í hinni má einnig skoða sem
tilraun til að flytja náttúruna inn til sín, inn í efnislegan gerviheim. En grjót-
veggurinn er margrætt og mjög Svövulegt tákn, ef mér leyfist að kalla það
svo. Hann er ekki aðeins sýnisgripurinn sem kemur hjónunum á hausinn
eða leið til að nálgast náttúruna í borginni, heldur er hann líka veggurinn
sem er kominn á milli hjónanna. Enn eitt dæmi um orðatiltæki sem er raun-
gert, tekið bókstaflega, til að kippa okkur úr sjálfvirkni hversdagsleikans og
fá okkur til að sjá með nýjum augum hvað er að gerast í raun, afleiðingar
efnishyggju og firringar. Kapphlaupið um að standa sig í þessu samfélagi
gerir hjónin bæði villt og örvæntingarfull en önnur gildi vantar. Tengslin við
gamla bændasamfélagið og gildismat þess eru rofin, en ekkert hefur komið í
staðinn. Þetta veldur óöryggi. Hús og veggir mynda fyrst og fremst skjól, en
hús og grjótveggur þessara hjóna bjóða ekki upp á skjól, heldur eru dæmi um
steinrunnið líf tveggja manneskja og skilin milli þeirra.
Steinar gegna mikilvægu hlutverki í verkum Svövu. Fyrir mér voru steinar
alltaf harðir og dauðir hlutir, sumir mjög fallegir að vísu, en þó harðir og
dauðir. Það hafði mikil áhrif á mig þegar ég las í viðtali við Svövu að hún
hafði gjörólíkt viðhorf til steina: hún leit á þá sem lifandi.4 Þetta viðhorf sótti
hún til sagnorðsins „að steinrenna“, sem sýndi að hennar mati ferlið þar sem
rennandi líf steinefnis krystallast smám saman og verður að steini. Í steinum
sameinist þannig andstæðurnar dauði og líf. Og hið sama má auðvitað segja
um hraun. Kannski þarf að alast upp í eldfjallalandi til að þróa þannig við-
horf til steina og grjóts og hrauns – að þeir séu gæddir lífi, og að í þeim búi
líf. Og að hlusta á steinana tala, eins og Þórbergur Þórðarson. Ég hef alla vega
aldrei horft til steina á sama hátt.
Í sögunni „Endurkoma“ úr smásagnasafninu Undir eldfjalli frá 1989 er
aðalpersónan Anna í flugrútunni á leið til Reykjavíkur eftir áratuga dvöl
erlendis og lítur út um gluggann á hraunbreiðurnar: „Steinninn afskipta-
laus og ógestrisinn hratt frá sér öllu nema mosanum sem af þrautseigju
vafði hann mjúkum föstum örmum og breiddi yfir hann marglit klæði sín“