Strandapósturinn - 01.06.1986, Síða 32
eða eftir 1951. Hann var vinnumaður alla sína ævi, lengst af á
Prestsbakka, fyrst hjá Kristjáni og síðar hjá séra Jóni Guðnasyni.
Hann þótti alltaf nokkuð undarlegur í tilsvörum og oft orðhepp-
inn. Skulu hér tilfærð nokkur af tilsvörum hans, er lifað hafa að
honum látnum.
Þegar móðir hans dó fór hann að jarðarförinni. Þegar hann
kom að heimili móður sinnar var skollin á svo mikil hríð, að ekki
þótti fært að halda af stað með líkið til kirkjunnar og var jarðar-
förinni því frestað. En Finni brauzt samt heim til sín um kvöldið.
En þegar heim kom varð honum að orði: „Það eru ekki allar
ferðir til fjár þótt farnar séu.“ Þótti þetta vera mælt nokkuð út í
hött og var lengi haft að orðtaki og notað þegar eitthvert áform
hafði misheppnast eða ekki komizt í framkvæmd.
Það var eitt sinn þegar Finni var vinnumaður í Skálholtsvík,
hjá Jóni gamla Þórðarsyni, að Lárus trúboða bar þar að garði og
Finni var beðinn að bera karlinn yfir ána, hvað hann gerði. Þeg-
ar yfir kom þakkar Lárus fyrir hjálpina og vill launa að nokkru
og spyr því Finna hvort hann trúi á Jesúm Krist. Finni svarar:
„Nei, það geri ég ekki.“ Trúboðinn: „Á hvað trúir þú þá?“ „Á
mátt minn og megin“, svaraði Finni. „Þá ferð þú til helvítis þegar
þú deyrð“, sagði trúboðinn. „Jæja“, svaraði Finni, „það verður þá
að hafa það.“
Einn vetur var ég um tíma á Prestsbakka til þess að hjálpa
Finna við gegningar og í ýmsum snúningum. Eitt sinn þegar við
sátum yfir miðdegiskaffmu biður prestskonan Finna að skreppa
fram í eldhúsið og ná í kaffikönnuna. Finni svarar: „Já, það skal
ég gera. Kaffikannan er nú það eina sem ég hef haft gaman af
að taka utan um.“ Vafalaust voru það orð að sönnu. Hann var
aldrei við konu kenndur.
Þennan vetur sváfum við Finni í sama herbergi í öðrum enda
baðstofunnar. Sagði hann mér þá margt, meðal annars sumt af
því sem áður er frá sagt og auk þess þá sögu sem hér fer á eftir:
Sumarið áður höfðu verið tvenn kaupahjú, sem hafa víst eitt-
hvað verið að kjá hvort í annað. Kaupamennirnir sváfu saman í
rúmi gegnt rúmi Finna, því sama er ég svaf í. Stúlkurnar sváfu
hinsvegar saman í rúmi í miðbaðstofunni.
30