Strandapósturinn - 01.06.1986, Blaðsíða 51
um við Strandamenn og víst er að margir viku þar góðu að hon-
um. Hann dvaldi oft tíma og tíma á Hólmavík og mun þá oftast
hafa haldið til í verbúðum sem þar voru þá. Þó vissi ég til þess,
að á einstöku heimilum átti hann innhlaup. Fáar húsmæður
mundu líklega núna geta hugsað sér, að taka lúsugan förumann
inn í stofu sína, láta hann sofa á eina sóffanum, eða dívaninum
eins og þá var, þvo og hreinsa öll föt hans yst sem innst og
kemba hár hans. Þetta vissi ég móður mína gera oftar en einu
sinni meðan hún bjó á Hólmavík og hljóta að launum þakkartár
einstæðingsins. En kannske voru þau engu verðminna gjald en
krónurnar sem sérhvert viðvik er greitt með nú.
Ásta-Brandur hélt áfram að flakka um landið í nokkur ár þótt
hann bæri örkuml eftir kalsár svo sem fyrr sagði. En að því kom
að hann varð að setjast um kyrrt eftir að hann hafði fundist
örmagna á fjöllum uppi árið 1954. Hann var þá orðinn veikur,
en leyndi sjúkdómi sínum meðan hann gat. Hann var fluttur á
sjúkrahúsið á Akranesi þar sem hann að vísu hresstist við, en var
fáskiptinn eftir það og fór ekki í fleiri ferðalög. Hann lést á Akra-
nesi í desember árið 1960, 77 ára að aldri og var þá, eftir því
sem ég best veit, endanlega brotið blað í sögu íslenskra föru-
manna. Það mun að minnsta kosti mega fullyrða að hann hafi
verið síðasti umrenningur á Islandi í þjóðlegum stíl.
Ekki hef ég í þessum fáu orðum reynt að gera neina sálfræði-
lega úttekt á Ásta-Brandi, til þess skortir mig alla kunnáttu. En ég
vildi gjarnan að það kæmi ffam í máli mínu, að ég tel að
Strandamenn hafi verið honum vel og hafi einskis að iðrast frá
samskiptunum við þennan hrjáða og stundum smáða meðbróð-
ur. Og væri Brandur hér á meðal ykkar í kvöld í fullu fjöri, þyrfti
hann áreiðanlega oft að taka upp vasabókina og blýantinn — en
hvað krónu-skiækurinn kostaði núna læt ég ykkur um að reikna.
Flutt á Þorrablóti Átthagafélags Strandamanna í Domus Medica í
janúar 1984.
49