Strandapósturinn - 01.06.1986, Page 62
vera búið að rækta visst mikið til að öðlast full eignarréttindi á
landinu. Enginn læknir og engin yfirsetukona var í nýlendunni.
Við hjónin áttum von á barni og urðum því að fara til Winnipeg
í marslokin. Okkur fæddist drengur 7. apríl 1901.
Vera okkar í nýlendunni varð ekki lengri og kom ég þangað
aldrei síðar.“
Hér verð ég að stytta frásögn Helga af Ameríkuför hans og
veru þar, en hún er bæði lifandi og fróðleg aflestrar og lýsir vel
hinum erfiðu kjörum vesturheimsfaranna.
Helgi var í Winnipeg og flutti þá út í Alfavatnsbyggð, vann al-
menna vinnu sem var að fá.
Börnin urðu þrjú, ein stúlka, Lára, sem áður er getið og tveir
drengir, sem dóu ungir. Kona Helga lést 7. júlí 1904. Vorið 1908
afréð hann að fara heim til íslands, mest orsakaðist Islandsför
hans af því að móðir hans var heilsutæp og hafði skrifað honum
og langaði til að sjá hann áður en hún dæi. Helgi mun hafa ætl-
að að fara aftur út til Ameríku þó það færi á annan veg.
Hér kem ég aftur inn á minningar Helga en nú er hann á
heimleið og Ameríka að baki.
„Ferðin heim gekk mjög vel og var ákaflega skemmtileg. Við
vorum 23 sólarhringa frá Winnipeg til Reykjavíkur.
Komið var við í Englandi og var skipt um skip. Við komum
upp undir Island að Austfjörðum og hrifningu okkar verður ekki
með orðum lýst, er við sáum gamla landið rísa úr sæ. Það var
siglt skammt undan landi til Reykjavíkur. Okkur fannst ekki veru-
lega sumarlegt þegar við komum þangað. Þá var þoka og fremur
kalt og var það vor fremur kalt hér á landi. Allur gróður var
kominn í fullan blóma í Ameríku er við fórum þaðan.
Eg skildi við samferðafólk mitt í Reykjavík og fór norður í
Hrútafjörð til foreldra minna. Gunnar bróðir minn sótti mig á
hestum til Borgarness. Móðir mín lifði í tæpan mánuð eftir að ég
kom heim og mátti ég því varla síðar koma til að sjá hana.“
Hér lýkur þessum styttu minningabrotum Helga Þórðarsonar,
þess manns sem var hvað víðförulastur af Gilhagabændum.
60