Strandapósturinn - 01.06.1986, Side 136
þyrfti bóninni þess vegna. Við þetta hljóp körlunum kapp í kinn,
enda skapríkir undir niðri þó stilltir væru að jafnaði. Lögðust þeir
því fast á árarnar og drógu ekki af sér. En fyrir liðsmuninn kom-
ust hinir á stærri bátnum mun fyrr undir vind og voru búnir að
sigla langan spöl þegar þeir félagar gátu dregið upp seglið á Sval.
Jónatan stýrði og hélt í skautið, en Magnús hafði tök á dragreip-
inu og lækkaði seglið ef báturinn hallaðist of mikið í vindhviðun-
um. Svalur var langur, mjór og borðlágur og þar eftir mikill
gangbátur á siglingu, og í þetta skipti létu þeir hann hafa það, því
að nú skyldi á það reyna, hvor fljótari yrði til hafnar. Það var
hrein unun að finna hvernig Svalur þaut áfram í snörpum hliðar-
vindinum og sniðskar hverja báruna af annarri. En þar sem nauð-
beit var á siglingunni lá báturinn stundum undir ágjöf (hún er oft
kröpp vestanbáran á Steingrímsfirði), en nú var enginn til að
ausa. Það vantaði þriðja manninn. Jónatan hafði laust skautið,
það er að segja, því var brugðið undir röng í skutnum og gat
hann þannig gefið strax eftir ef seglið var ekki lækkað nógu
fljótt. Hina hendina hafði hann á stýrissveifinni.
Hann tók þá til bragðs að ausa með hendinni sem hélt áður í
skautið, en brá á meðan skautinu í munn sér og hélt því með
tönnunum, en Magnús sagði honum til ef varhugaverð bára
nálgaðist. Þarna varð snilldarsjómennska að hreinni íþrótt sem
skilaði góðum árangri.
Svalur lét ekki sitt eftir liggja, hann geystist áfram með ham-
förum og dró óðum á stærri bátinn og kappsiglingin endaði
þannig, að þeir á Sval voru lentir í Smáhamravognum þegar hin-
ir voru að koma fyrir Kríuskerið sem er innan til við voginn.
Þannig sagðist Þorsteini frá og ég hugsa, að þó feður okkar
legðu mikið á sig við barninginn, til að komast undir vind, hafi
þeir verið ánægðir með leikslokin og fundist erfiðið vel borgað.
Trúað gæti ég því.
134