Andvari - 01.01.2013, Blaðsíða 23
ANDVARI
VILHJÁLMUR ÞÓR
21
byggða og hver byggð var sín eigin atvinnu-, þjónustu- og þjóðlífsmiðja,
að nokkru leyti lokuð inni í sjálfri sér vegna torfæru og vegaleysis til
annarra byggða.
Foreldrar Vilhjálms fluttust úr sveitinni út á Akureyri þegar hann var
fimm ára og þar gekk hann fjóra vetur á barnaskóla. Á fermingaraldri
byrjaði hann að vinna sem sendill við Kaupfélag Eyfirðinga á Akureyri.
Hann hefur sjálfur sagt frá því að það hafi verið hálfgerð tilviljun að
þetta starf varð fyrir valinu, en hann sá aldrei eftir því. Fyrir utan
enskunám hjá Arthur Gook, kynnisferð til Svíþjóðar og eitt samvinnu-
og verslunarnámskeið varð skóli Vilhjálms allur í starfi og félagslífi.
Studdi hann þá móður sína líka, en faðir hann lést fyrir aldur fram.
Vilhjálmur var ungmennafélagi og tók virkan þátt í fótboltaleikjum.
Það var vorþytur í lofti á árunum upp úr aldamótunum og miklar
hugsjónir og bjartsýni lágu í loftinu víða. í fyrsta sinni í sögunni var
nú kallað til allrar alþýðu, alls almennings, um afskipti, aðild og þátt-
töku í félagsmálum og samfélagsmálum. Og þessu fylgdi metnaður,
framfarahugur og þjóðerniskennd. Það hélst í hendur að vilja byggja
upp, erja ættjörðina og efla íslensk atvinnufyrirtæki, framleiðslu og lífs-
kjarabætur fyrir allan almenning. í þessum anda störfuðu kaupfélögin,
sterkust til sveitanna, og verkalýðsfélögin sem líka fjölgaði og efldust í
bæjunum. Víðast voru samvinnufélögin tæki sjálfseignarbændastéttar-
innar sem varð til eftir sölu þjóðjarða og kirkjujarða, en sums staðar í
bæjunum tengd öðrum almannahreyfingum.
Kaupfélag Eyfirðinga varð öflugt forystuafl í fylkingarbrjósti. Þegar
Vilhjálmur Þór kom þar til starfa tólf ára gamall, hinn 1. júní 1912, varð
hann sjöundi starfsmaður þess. Félagið hafði verið stofnað árið 1886 og
starfaði fyrst sem pöntunarfélag eins og önnur slík gerðu á þeim tíma.
Inn í það runnu Kaupfélag Eyjafjarðar, Pöntunarfélag Eyjafjarðar og
Pöntunarfélag Svarfdæla. Hallgrímur Kristinsson, síðar fyrsti forstjóri
Sambands íslenskra samvinnufélaga, varð kaupfélagsstjóri árið 1902.
Hann hóf miklar skipulagsbreytingar sem urðu öðrum samvinnu-
félögum fyrirmynd. Árið 1906 hóf kaupfélagið verslunarrekstur með
sölubúð og staðgreiðsluviðskiptum en hætti sem pöntunarfélag. Líta má
á þessa breytingu sem vitni um þá atvinnu-, verkaskiptingar- og sam-
félagsþróun sem stóð yfir enda hurfu önnur samvinnufélög að þessu
ráði. Á árum Hallgríms breyttist KEA úr fátæku pöntunarfélagi sem
var rekið við lágmark yfir í öflugt forystufyrirtæki með mörg járn í eldi
framfaranna á heimaslóð.