Andvari - 01.01.2013, Blaðsíða 143
ANDVARI
ER HÆGT AÐ YRKJA HJARÐLJÓÐ SVONA NÆRRI NORÐURPÓLNUM?
141
scape, fr. paysage intérieur).22 Þó að vetur ríki hið ytra er önnur árstíð hið
innra:
Svo dvelji söngfugl hver einn fyrir handan
Og hylji fönnin blómið hvert, sem dó;
Vér eigum sumar innra fyrir andann,
Þá ytra herðir frost og kyngir snjó. (150)
Steingrímur sýnir sálarlífið líka sem eins konar náttúru. Hann lýsir hugar-
æsingi sem óveðri í ljóðinu Veðraskiptin innri:
Æsir hug minn ofurstríð,
Angur, hatur, reiði,
Rétt sem ský, er rokna hríð
Rekur yfir heiði,
Þétt af vætu, þrungin glóð;
Þjóta í tindum vindahljóð. (217)
Ljóðið Logn og hret er ort um sálarlífið sem innra landslag ólgu og drunga:
„Inn’ í mér sjálfum hrygðar haf / Herjast andvarpa stormum af.“ (185)
Steingrímur orti líka ljóð í lausu máli sem eru tilraunakennd og djörf í sam-
anburði við mörg hefðbundnari kvæði sem hann lét frá sér fara. Prósaljóðin
lýsa náttúru sem virðist á mörkum hins ytra og innra, enda eru þessir textar
draumkenndir og svífandi eins og sjá má á eftirfarandi tilvitnun: „Hverf þú,
sól, með glit geisla þinna. [...] Hverf þú og láttu nóttina, systur dauðans,
breiða vængi sína yfir það, sem er hennar, dagurinn villir, geislaglit hans er
tál, nóttin er dagur hins innra manns.“23
Önnur hlið á þessari huglægni er hið tilbeiðslukennda viðhorf til náttúr-
unnar. Helgi hennar birtist með ýmsum hætti í ljóðum Steingríms. Hann
yrkir um náttúruna sem guðshús í ljóðinu Kirkja vorsins (284-285). Þar er
sólin hið helga ljós, fjöllin eru altari, elfan er orgelið, fuglarnir kirkjukórinn
og vorið syngur messuna. Ljóðmælandinn „guðspjöll les í blómum“ (285) og
minnir það á aldagamlar hugmyndir kirkjunnar um „bók náttúrunnar" sem
kristnir menn voru hvattir til að læra að lesa, svo að þeir gætu skilið sköpun-
arverk guðs.24 Steingrímur yrkir víðar um náttúruna sem kirkju, til dæmis í
ljóðinu Morgunn þar sem ljóðmælandinn setur sig í trúarlegar stellingar og
biður bænir til þessa veraldlega almættis: „Með tengdum höndum, kropnum
knjám / Kveð eg þig dags á vegi hám.“ (115)
Upphafning Steingríms á náttúrunni getur líka birst í kvengervingu henn-
ar, sem er þekkt einkenni í skáldskap Biedermeiertímans eins og áður er
rakið. Háfjöllin eru meðal þekktari ljóða hans og þar er náttúran upphafin
sem móðir: