Andvari - 01.01.2013, Blaðsíða 158
156
SVEINN EINARSSON
ANDVARI
eldrar, þar á meðal röð af stjúpfeðrum, frænkur og frændur, vinir og allir sem
taka þurfa þátt í öllu því ameríska umstangi sem eitt brúðkaup er nú á dögum
á íslandi. Enn er skáldið með skopið á lofti og deilir á yfirborðsmennskuna,
eftiröpunina úr kvikmyndum og sjónvarpi. Hann er við það heygarðshornið, ein
persónan segir til dæmis: „Byrjaðu bara að tala, þá ferðu ósjálfrátt að hugsa.“
En það gengur ekki endilega eftir, sjálfstæð hugsun er býsna landflótta í amer-
ískum brúðkaupssiðum innfluttum til hins íslenska smáborgara. Atburðarásin
verður svosem ekki rakin hér, enda er partur af ádeilunni að hún er ekki frum-
leg, allt á að vera fyrirsjáanlegt, allt frá steggjapartíum, brúkaupsvendi til hrís-
grjóna. En þarna er hvert atriðið öðru skondnara og mannlýsingarnar margar
bæði þekkjanlegar og koma manni þó á óvart. En spurningin er auðvitað hvort
haft er fyrir þessu öllu vegna brúðhjónanna sjálfra.
Þetta leikrit vakti ekki sömu almenna ánægju og kann að vera, að sá stíll
sem höfundur og leikstjóri verksins við frumflutninginn, Hilmar Jónsson, við-
höfðu virðist ekki hafa verið öllum áhorfendum nógu kunnur og tiltækur til
samanburðar. Þarna voru nefnilega á ferðinni einfaldaðar ýkjur í teiknimynda-
stíl og mun vera fyrsta leikritið sem hæðist að teiknimyndum, sem nánast hafa
verið teknar í menningarlega dýrlingatölu upp á síðkastið. En enn sem fyrr er
aðflutt lágkúrumenning það sem skáldið snýr spjótum sínum að og undirlægju-
hætti landans og flýti að apa eftir. Sölumennskuöflin með aðstoð nútímafjöl-
miðlunar vinna öruggt og markvíst gegn skapandi sérkennum á smápleisum
eins og íslandi.
Árni samdi margt fleira fyrir leiksvið, sjónvarp auk áðurnefndra útvarps-
leikrita og verður það ekki rakið hér, aðeins minnt á örleikritið O Meg, my
Life is, sem sýnt var i jaðarleikhúsinu The Luminous Group í New York.
Hann átti einnig oft góðan þátt í Áramótaskaupum Ríkisútvarpsins. Og þá má
ekki gleyma óperutextanum Maður lifandi við tónlist Karólínu Eiríksdóttur;
sá texti er byggður á gamla miðaldaleikritinu Sérhver, en unnið úr því sam-
hengi á mjög persónulegan hátt. Frá síðustu árum Árna eru líka nokkrar af
hans bestu ljóðabókum, Vort skarða líf, Úr hnefa (1994) og A stöku stað með
einnota myndavél. Hún kom út sama ár og hann lést, 2007. Og hafði hann
komið að valinu, þrátt fyrir heilablóðfall sem hann varð fyrir árið 2004. En
umfjöllun um ljóð Árna er í raun efni í aðra tímaritsgrein.
Árni Ibsen lést þannig í miðju dagsverkinu. Hann var þá að vinna að enn
einu forvitnilegu leikriti, sem var á mjög heimpekilegum nótum og þar sem
hann lék sér mjög með tungumálið. En það kemur væntanlega aldrei óklárað á
svið. Greinarhöfundur fylgdist nokkuð náið með því þegar það var að brjótast
fram. Enn var þar á ferð míkrókosmos, en fólkið sundurleitara en áður og átti
það til að taka frammí fyrir höfundi.
Því miður var það annar höfundur sem tók frammí fyrir lífsverki Árna.
íslenskt leikhús mátti síst við því tapi.