Andvari - 01.01.2013, Blaðsíða 135
ANDVARI
ER HÆGT AÐ YRKJA HJARÐLJÓÐ SVONA NÆRRI NORÐURPÓLNUM?
133
Saga hjarðljóða í íslenskri bókmenntasögu er heldur slitrótt, en segja má að
hún hefjist á 17. öld með þýðingu Stefáns Ólafssonar á danska hjarðljóðinu
Lúkidór og Krýsillis, sem lýsir ástum smala og smalastúlku. Hjarðljóð höfðu
þá verið í tísku um skeið í Danmörku og þar hefur Stefán kynnst þessari hefð,
þó að hann legði hana reyndar lítt fyrir sig í eigin skáldskap.6 Það beið upp-
lýsingarmanna 18. aldar að hefja hjarðljóðahefðina til vegs og virðingar í ís-
lenskum bókmenntum, en hún birtist þar reyndar ekki í upphafinni mynd
heldur var hún sett fram á gagnrýninn hátt og henni fengið félagslegt hlut-
verk. Eins og skilgreining Giffords ber með sér hafa hjarðljóð frá fornu fari birt
eins konar óskamynd af lífinu í mynd náttúrulýsinga en boðið um leið upp á
ákveðna gagnrýni á margt sem miður þykir fara í heiminum. Þessi tvíbenta
afstaða einkennir að mörgu leyti það verk sem hæst ber í íslenskum skáld-
skap af þessu tagi á 18. öld, Búnaðarbálk Eggerts Ólafssonar (prentaður 1783).
Eggert dregur þar upp fjölbreyttar myndir af íslenskri náttúru og nytjum
hennar, en verkið er samofið gagnrýni hans á sofandahátt landa sinna, skort
þeirra á sjálfsbjargarviðleitni og framfaratrú. Fyrirmyndir Búnaðarbálks eru
forn kvæði eins og Georgica Virgils og Verk og dagar eftir Hesíódos, en einnig
má benda á hliðstæður í ýmsum náttúruljóðum samtímans, m.a. Die Alpen
eftir Albrecht von Haller (1729) og The Seasons eftir James Thomson (1726-
1730).7 Þó að verkið kallist á við fornklassíska búnaðarbálka yrkir Eggert á
köflum þannig um náttúruna að það vísar fram á við, til skálda 19. aldar
sem gerðu náttúruna að fagurfræðilegu viðfangsefni og viðmiði allra hluta. I
kvæðabálki hans má finna erindi sem eru hrein náttúrulýrík og lýsa unaðs-
semdum sveitalífs, ánægjunni sem hafa má af því að fylgjast með fuglum og
dýrum jarðar. Maðurinn getur dregið lærdóma af náttúrunni eins og Eggert
sýnir með dæmum (14. erindi Náttúrulystar Búnaðarbálks):
I þeirra fugla eðlisháttum
ei nema lyst og gleði fann;
þeir átu nær þeir eta máttu,
af þeirra vistum sjórinn rann;
en þegar vatnið yfir flaut,
á meðan sérhvörr hvíldar naut.8
I Búnaðarbálki er áherslan lögð á starfsamt líf hins góða bónda og konu hans
í „sæludal“ kvæðisins, á það að yrkja jörðina og lifa í samræmi við hrynjandi
náttúrunnar. Þau eru fyrirmyndarfólk og bústörfin eru óskamynd af því lífi
sem lifa má á Islandi. Að því leyti er Búnaðarbálkur útópískt verk eins og
Guðrún Ingólfsdóttir hefur bent á, enda eru útópíur eða staðleysur oft settar
fram í þeim tilgangi að sýna hvað betur mætti fara í samtímanum og helst
óskamyndin þannig í hendur við hina hörðu gagnrýni sem kemur fram ann-
ars staðar í kvæðabálknum.9