Andvari - 01.01.2013, Blaðsíða 154
152
SVEINN EINARSSON
ANDVARI
einu sinni eftir hlé, en í hléi skipta áhorfendur um sæti, þannig að þeir sem fylgdust með
atburðarásinni „úti“ fyrir hlé, fylgjast með því sem gerist „inni“ eftir hlé - og öfugt. Það
skiptir ekki máli hvorn þáttinn áhorfendur sjá á undan... Hvor þáttur um sig inniheldur
7 númeruð atriði og eiga númerin að standast algerlega á að því er varðar tímasetningu
(tæmingu) í leik. Það gildir um öll atriðin, einnig einræðurnar. Þannig er til dæmis
atriði númer 5 úti leikið á sama tíma og atriði númer 5 inni....
Þetta fyrirkomulag gerir óvenjulegar kröfur til leikstjóra og leikenda.
Persónur leiksins eru aðeins sex, þrjár af hvoru kyni og koma saman í
umræddum sumarbústað til að „skemmta sér“, sletta úr klaufunum. Þó að
eilítið örli á einstaklingseinkennum, eru þau þó öll fangar lífsmynsturs sem
þau temja sér til að skapa sér sess í hópnum. Steinunn, ein sögupersónan, er
reyndar stjórnsöm, var í fótbolta, en hætti þegar hún komst ekki landsliðið og
sér sárlega eftir Gauja; þau höfðu verið saman áður og það skapar ákveðna
spennu í þessari sumarbústaðar-hvíldardvöl. Unnur er dekurrófa, sem líkar
best að láta aðra stjana við sig, meðan hún les tísku- eða slúðurtímaritin sín.
Anita er hins vegar ný í hópnum, óörugg um að verða tekin gild, en svarar
þó rösklega fyrir sig, þegar henni finnst á sig hallað og reynist svosem sami
plebbinn þegar á hólminn er komið. Þó tilbúin að taka til eftir hina. Gaui
er orkumikill og fær útrás t.d. í því að grilla, enda er það kúl samkvæmt
mynstrinu. Beggi er hinn eilífi kvennabósi sem hefur fá önnur áhugamál en
að komast yfir nýja og nýja bráð. Tryggvi er svo „góði strákurinn“, kóarinn,
stuðpúðinn, dæmdur til að verða hinn eilífi kokkáll. „Númer tvö“, eins og
Steinunn orðar það.
Satt að segja eru þau öll á eins konar stöðnuðu táningastigi, ófær um að
hugsa sjálfstæða hugsun, hvað þá koma orðum að henni; úrræðið í fátækt
orðaforðans er að sletta enskum frösum í tíma og ótíma og fylgja þeim eftir
með kvikmyndalegum stælum; stöðugt að sýna að þau séu með í svinginu,
ekki lúserar sem er afar óeftirsóknanlegt, annað en þau í rauninni eru, eða
finnst þau vera. Öll eiga þau eintöl við áhorfendur og Gaui orðar þetta einmitt
svo í sínu eintali:
„Æ, ég veit það ekki, maður, ég meina, mér finnst ég alltaf þurfa að vera að tala, og bara
sko, ef ég geri það ekki, þá bara finnst mér eins og hérna... enginn fatti neitt... ever...
Sko, stundum er ég að tala um eitthvað, eða eitthvað, eins og ég til dæmis ef ég vil að
eitthvað verði eins og ég vil hafa það, þá bara, samt, gerist eitthvað allt annað, ég meina, til
hvers var ég þá að tala, ha? Nei, ég hérna, maður getur kjaftað sig brjálaðan, maður, bara
kjaftað sig uppum alla veggi og allt, en hérna samt, sko, samt, hérna, er maður ekki að
gera neitt nema tala, maður.. .Okei, okei sko... Ég get orðið alveg svakalega frústreraður,
þegar, sko, hérna.. .heimurinn eða votever... er ekki kominn jafn langt og ég....“
Heimurinn er auðvitað sá mikrokosmos sem birtist í þessari sumarbústaða-
dvöl sem er flótti, í rauninni frá sjálfum sér og samfélaginu, líkt og hjá