Goðasteinn - 01.09.1965, Side 31
var Ansgar meðal munka þeirra frá Corbie, sem þar tóku aðsetur.
Einnig þar stjórnaði hann klausturskólanum og messaði auk þess
opinberlega í kirkju klaustursins, en það gefur til kynna að hann
hafi kunnað saxneska tungu, sem var ríkjandi á þessum slóðum.
Sennilega var hann þá prestvígður, og vissulega hafði hann fengið
vígsiu, er hann hóf hina löngu ferð með Haraldi klak hinum danska,
sem hirðprestur hans og trúboði á ókunnar og framandi slóðir
árið 826.
Hafi Ansgar gert sér vonir um skjótan trúboðsárangur, þá brustu
þær fljótt. Hann hóf að kenna og prédika á verzlunarstöðunum
tveimur við Slýfjarðarbotn, Slésvík og Heiðabæ, en starfsfriður
hélzt ekki lengi. Trúarskipti Haralds konungs mun hafa gert óvini
hans hálfu verri en áður og sóttu þcir nú svo fast að honum, að
hann fékk ekki rönd við reist. Kom brátt að því, að hann var
hrakinn brott á ný úr landi sínu.Settist hann þá að í hinu frísneska
léni Riistringen við Weser, en það hafði keisarinn gefið honum sem
athvarf, ef svo kynni að fara, að hann héldist ekki við í heima-
landi sínu.
I sögu Ansgars segir, að margir Danir hafi tekið trú, en eitthvað
hlýtur það að vera orðum aukið, því engir söfnuðir voru stofnaðir
né kirkja reist. Og með konungi hefur Ansgar orðið að yfirgefa
Danmörk og þar með var trúboði lokið þar að sinni. Ansgar
dvaldist með Haraldi konungi sem prestur hans um skeið, en brátt
fékk hann ný og erfiðari verkefni.
III.
Árið 829 kom sendimaður frá Birni konungi í Svíþjóð á fund
Loðvíks keisara og tjáði honum, að margir þar í landi óskuðu eftir
kristinni guðsþjónustu og að konungurinn væri fús að leyfa starf
prests í ríki sínu. Keisarinn fékk þegar mikinn áhuga og aftur var
Ansgar valinn til trúboðsferðar í fjarlægt land. Ansgar fékk vitrun,
þar sem honum var boðið að takast ferð þessa á hendur og var
hann því mjög fýsandi hennar. Með honum til fararinnar var ráð-
inn klausturbróðir að nafni Witmar, og héldu þeir brátt af stað.
Á leiðinni yfir Eystrasaltið varð skip þeirra fyrir árás víkinga,
sem rændu það og rupluðu. Menn sluppu þó með lífi, en allt fé-
Goðasteinn
29