Goðasteinn - 01.09.1965, Qupperneq 36
V.
Er Ansgar náði svo góðum árangri meðal Dana, hugðist hann
einnig reyna á ný að kristna Svía. Þar hafði ekki verið prestur
síðan Gauzbert var hrakinn burt árið 845. Ansgar sendi því þangað
munkinn Ardgar, 852. Honum varð lítið ágengt, en fékk þó að
þjóna hinum kristna söfnuði í Birka. Meðal annars veitti hann
hinum aldna Hergeiri jarli sakramenti á dauðastundinni. Ardgar
sneri brátt heim og skoraði þá Ansgar á Gauzbert, sem nú var
orðinn biskup í Osnabrúck, að endurnýja trúboð sitt í Svíþjóð.
Gauzbert treystist eigi og tók Ansgar þá að sér ferð þangað. Til
fararinnar fékk hann meðmælabréf frá Loðvíki konungi þýzka og
einnig skrifaði Hárekur Dankonungur Ólafi konungi í Svíþjóð
bréf, þar sem sagði, að hann hefði aldrei hitt jafningja Ansgars i
fögru líferni og heiðarleik. Lagði hann til að Svíar leyfðu svipað
trúfrelsi og komið var á í Danmörk.
Er Ansgar kom til Svíþjóðar, var þar allt í uppnámi. Maður einn,
sem þóttist tala fyrir munn hinna heiðnu goða, sagði þau reið og
ekki þyrfti fólk að vænta hjálpar þeirra, ef átrúnaður á framandi
guð yrði leyfður í landinu. Lá við borð, að ráðist yrði á Ansgar
og aðra kristna menn í Birka og þeir drepnir. En hinir vitrari
meðal heiðingjanna miðluðu málum og niðurstaðan varð sú, að
leitað var álits goðanna með hlutkesti. Svöruðu goðin þá þannig,
að kristni skyldi leyfð og ekki bæri að lasta hana.
Ansgar og menn hans hófu nú trúboð í Svíþjóð á ný. Konungur-
inn gaf lóð undir nýja kirkju, er Ansgar lét reisa. Auk þess keypti
hann hús handa presti, er þjóna skyldi þar. Brátt voru trúboðsmálin
komin í svo gott horf að Ansgar hvarf aftur heim til stóls síns. Gauz-
bert hafði umsjón með hinni sænsku kirkju, þar til hann dó 858.
Eftir það annaðist Ansgar um hana.
Þegar Ansgar kom aftur heim til stóls síns, höfðu mikil um-
skipti orðið í Danmörk. Hárekur konungur hafði verið felldur
frá ríki, ásamt mörgum fylgismanna og vina Ansgars í Slésvík.
Hárekur yngri, sem til valda kom, lét loka kirkjunni og reka prest-
inn burtu, því að hann sagði goðin reið vegna hins nýja átrúnaðar
í landinu. En þessi heiðna uppreisn stóð aðeins skamma hríð, og
snerist konungi brátt hugur.
34
Goðasteimi