Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1964, Blaðsíða 92
BJÖRN KRISTJÁNSSON, fyrrv. alþingismaSur
VATNSBÆJA-ENGI
í Kelduhverfi vestanverðu er allstórt vatn, sem Víkingavatn heit-
ir. Vestan þessa vatns, sunnarlega, er samnefndur bær á háum hól,
landnámsjörð. Um það bil 300 metrum sunnar, við suðausturenda
vatnsins, er bærinn Kílakot og sunnan vatnsins bærinn Ólafsgerði.
Eru báðir þessir bæir, ásamt bænum Sultum, sem er um 3 km
vestan-suðvestan vatnsins, byggðir í landi jarðarinnar Víkingavatns,
enda í eldri jarðamatsbókum taldir hjáleigur frá þeirri jörð. Aust-
an við suðurenda vatnsins er bærinn Grásíða, en sú jörð er sjálf-
stætt býli frá fornu fari og telst ekki til Víkingavatnstorfunnar.
Hinar jarðirnar fjórar eiga allar sameiginlega óskipt beitiland og
mikið afréttarland. Þeir bæirnir, sem við vatnið standa, eru í dag-
legu tali nefndir Vatnsbæir, og er þá jörðin Sultir undanskilin, en
Grásíða meðtalin. Allar fimm jarðirnar eiga afmörkuð engjalönd
í og við vatnið, og auk þess eiga jarðirnar Lón og Auðbjargarstaðir
í Kelduhverfi engjaspildur við vatnið, sem áður fylgdu jörðinni
Víkingavatni, en voru teknar undan henni og lagðar undir Lón og
Auðbjargarstaði nálægt miðri síðastliðinni öld af séra Benedikt
Vigfússyni á Hólum í Hjaltadal, sem þá var eigandi allra þessara
jarða.
Dýpi vatnsins er ekki meira en það, að stætt er fullorðnum manni
um mestan hluta þess á sumrum, en í haustrigningum og eftir
vorleysingar er það nokkru dýpra. Vatnið er mjög vogskorið og í því
margir hólmar, er hver hefur sitt nafn. Mjög eru þeir misjafnir
að stærð.
Víða út frá bökkum vatnsins og hólmanna er votlendisgróður,
sumstaðar óvenju stórvaxinn, og er það aðalengi jarðanna. Helztu
grastegundir eru græna (gulstör), blástör og sef (fergin), en í mýr-
lendi austan vatnsins vex smávaxin gulstör. Var það engi mestallt
slegið í gamla daga, áður en stórvirk jarðvinnslutæki og tilbúinn