Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1964, Blaðsíða 95
VATNSBÆJA-ENGI
97
var landi, mislangur eftir grasmagni og þreki verkamannsins, og
ýtt að landi, eða upp á land, síðan var næsti hluti skárans tekinn
á sama hátt og ýtt að fyrstu ýtunni, og svo hver af öðrum, þar
til allur skárinn var kominn í ýtur upp við land. Ef fleiri menn
voru í samverki, svo sem oftast var, gengu þeir saman tveir til
þrír á ýturnar og ýttu þeim á undan sér upp á þurrt land. Var þetta
eitt af allra erfiðustu verkum við votheyskapinn og ekki ætlandi
öðrum en fullþroskuðum karlmönnum. Við þetta verk voru notaðar
svonefndar ýtuhrífur, sem voru miklu efnismeiri og sterkari en
venjulegar hrífur.
í sumum stararflögum var góður botn sem kallað var, þ. e. a. s.
sléttur og harður sandbotn, en aldrei var grasið þétt þar sem svo
hagaði til. Annars staðar, þar sem gróður var þéttur og þroska-
mikill, var grasrótin svo samfelld, að hún hélt manni uppi, þótt
undir henni væri þykkt lag af leir (sennilega kísilgúr) og rotnuðum
jurtaleifum. Víða voru þó ógrónar rotskellur og engar rætur til að
halda manni uppi, og sökk maður þá niður gegnum eðjuna á fast-
an sandbotn, sem alls staðar var undir henni. Kom þá fyrir, að
annar fótur manns hvíldi á rótartodda í fetsdýpi eða minna frá
vatnsyfirborði, en hinn fóturinn í mjaðmardýpi. Enn var það til,
að leireðjan var svo þykk (2—3 fet), að hún náði næstum upp að
yfirborði vatnsins, og væri þar ekki jafn og samfelldur gróður,
varð að vaða gegnum þykka og límkennda eðjuna. Gaus þá upp
megn óþefur af rotnuðum j urtaleifunum. Mjög var erfitt að vinna
þessar rotflögur, sérstaklega að ýta skárunum yfir gróðurtoddana,
en verkamaðurinn hálf-fastur í roteðjunni. Oft kom það fyrir,
að þar sem í ár var þétt og samfelld grasrót, voru næsta sumar
komnar miklar rotskellur, sem ekki greru upp að fullu fyrr en
eftir nokkur ár.
Eftir að búið var að ýta upp störinni, var grasið borið í fanginu
á þurrkvöll og dreift til þerris, og var það mjög erfitt verk. Víða
var samt svo raklent nærri ýtunum, að ógerlegt var að koma
heyinu í flekk á þennan hátt. Varð þá að leggja það á reipi, draga
í hagldir og hnýta hlassinu í trékefli, sem fest var á báðum endum
með aktaugum í aktygi hesta, sem síðan drógu það þangað sem
jarðvegur var nægilega þurr, og grasinu síðan dreift í hæfilega
þykkan flekk. Þetta var kallað að draga upp hey eða uppdráttur.
Upp úr aldamótunum komu í verzlanir á Húsavík heykvíslar þrí-
arma, sem reyndust hið mesta þarfaþing, sérstaklega við vothey-
skapinn, og þykja nú ómissandi á hverju heimili við heyskapar-
7