Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1964, Blaðsíða 144
146
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
aðar á ári. Þórður Tómasson hefur unnið undirbúningsvinnuna
við listana frá upphafi þjóðháttaskráningarinnar.
Á aldarafmæli safnsins tilkynnti menntamálaráðherra dr. Gylfi
Þ. Gíslason, að ríkisstjórnin hefði ákveðið að stofna þjóðháttadeild
við safnið, og fól þjóðminjaverði að hefja undirbúning í því sam-
bandi. 1 tillögum um fjárveitingar á árinu 1964 var því gert ráð
fyrir slíkri deild og að ráðinn yrði sérmenntaður maður að safninu
hennar vegna sem fullkominn safnvörður. Var staða þessi auglýst
seint á árinu, og sótti um hana Þór Magnússon, fil. kand. Ráðgert
er að setja þessa deild á laggirnar undir eins upp úr áramótum.
Þjóðminjasafninu er að sjálfsögðu mjög kærkomin þessi viðbót við
starfslið og starfssvið, og mun hin nýja deild taka við starfi þjóð-
háttaskráningarinnar, efla söfnun og auka vísindalegar rannsókn-
ir á sínu sviði.
Viðhald gamalla bygginga.
Á árinu var ekkert stórt átak gert í sambandi við viðhald gam-
alla bygginga í vörzlu safnsins, en árleg aðhlynning er að sjálf-
sögðu svipuð frá ári til árs. Lokið var að fullu við að gera við Hóla-
kirkju, svo að hún má nú heita í mjög góðu standi. Hafði Hró-
bjartur Jónasson, smiður frá Hamri í Hegranesi, þetta viðgerðar-
starf með höndum. Kirkjan átti á þessu ári 200 ára afmæli, og
var þess minnzt með hátíðahöldum á Hólum hinn 25. ágúst að við-
stöddum biskupi, kirkjumálaráðherra og mörgum öðrum gestum,
meðal annarra fjölda presta. Tók þjóðminjavörður mikinn þátt í
undirbúningi hátíðarinnar og setti saman samfellda dagskrá um
sögu kirkjunnar, sem flutt var af honum og fleirum á síðdegis-
samkomu í dómkirkjunni, en fyrr um daginn hafði verið hátíða-
guðsþjónusta. Kirkjumálaráðherra tilkynnti, að ríkisstjórnin gæfi
kirkjunni klukkur í turninn sem afmælisgjöf. Út var gefin önnur
útgáfa af bæklingi þjóðminjavarðar um Hólakirkju, fyrst gefinn
út 1950, og kostaði menntamálaráðuneytið útgáfuna.
í Gröf á Höfðaströnd var hringveggurinn kringum kirkjugarð-
inn gerður upp, enda var hann orðinn mikið niðurníddur, og einnig
var gert verulega að moldum kirkjunnar.
Á Keldum á Rangárvöllum var gert rækilega við lambhúsin á
svokölluðu Framtúni, en þau eru meðal þeirra húsa, sem ríkið á á
Keldum og ætlunin er að varðveita.
Gert var svo sem þörf var á við gamla klukknaportið á Möðru-