Lögrétta - 01.03.1932, Síða 84
279
LÖGRJETTA
280
Tíndafjöll
Það var í haust að jeg var beðinn að koma
iipp á Land með bíl, sem átti að fara þangað
seinnipart dags. Það er langt síðan að mjer
fór að þykja gaman að því að fá tækifæri
til að koma upp á Land í nánd við tignar-
legu fjöllin, sem jeg lærði þegar jeg
var ungur, að líta upp til og dáðst að. Alt-
af finst mjer Hekla jafn tignarleg, fögur og
eitthvað seiðandi, þegar jeg er kominn í
mátulega nálægð við hana.
Haustblærinn er kominn yfir alt og
kvöldskuggarnir altaf að nálgast. Bíllinn
keppist við að komast sem lengst á meðan
ljós er á lofti. Landsveit er nú að byrja.
Það birtir eitthvað upp í bílnum, jeg fer
að horfa út um gluggann. Birtan stafar frá
sólskinsbletti, sem lent hefur á Tindafjöllum
og hann situr þar kyr. Oft hef jeg farið
þessa leið áður, en aldrei hef jeg sjeð
Tindafjöllin í öðru eins skrúði og nú. Það
var eins og öll fegurð þeirra og mikilleiki
drægist þarna saman í einn sólskinsblett.
Tindarnir urðu líka allir í einu brosi og lífið
sýndist sindra úr augum þeirra.
Hið glaða skin kvöldsólarinnar hefur
margan glatt, svo að sál hans hefur lyftst
til flugs.
Það er því líkast, sem tindarnir vildu
nota sjer þessa stuttu en dýrmætu-4kveðju-
stund. Þeir skreyttu sig alla með logagylt-
um fjöðrum kvöldsólarinnar og voru lítillát-
ir sem börn. Þeir smíðuðu sjer í skyndi
skrautlegt hús, þarna á móti kvöldsólinni.
Nú mátti engum geisla glata, því nótt og
vetur voru í nánd.
Það eru ekki altaf sólskinsdagar hjá þeim
tindunum þeim arna. Þegar þeir hafa verið
að gá til veðurs og líta upp yfir fjöllin, hafa
þeir oft fengið að kenna óþyrmilega á of-
stopa norðanvindanna, því þeim sýnist
aldrei vera hægt að gera til hæfis. Þegar
tindarnir hafa verið að gá til verðurs og þeir
hafa ekki sjeð neitt uggvænlegt, hafa þeir
orðið fyrir kynstrum af snjó, sem norðan-
vindarnir hafa skelt þeim ómjúklega á
vanga og reyndu um leið að kæfa þá í snjó.
En tin iarnir hafa ekki farið sjer óðslega að,
altaf verið jafnrólegir og ekki haggast, hvaö
sem óróa stormanna hefur liðið. Og undar-
legt var það, að aldrei tókst vindunum að
færa tindana í kaf, því þeir sópuðu öllu í
burtu með sjálfs sín hala, sem þeir vildu
hafa til þess að koma tindunum í kaf.
Stormamir voru eins og hinn óróagjarni
æsingamaður, sem aldrei gætti sín fyr en
hann var búinn að brjóta það niður, sem
hann vildi upp byggja.
Alt líf leitar að meira ljósi. Jeg hef haft
ánægju af að veita öræfahimbrimanum eft-
irtekt þegar jeg hef komið þar inneftir.
Þegar hann er orðinn leiður á dimmviðrinu
í kringum sig tekur hann sig upp, ef hann
sjer einhversstaðar sólskinsblett í lofti eða
á láði, og flýgur þangað með hreimsterkum
vængjadyn og fögrum söng. Svo flýgur hann
þar um fram og aftur, þar sem sólskinsblett-
irnir eru, til að svala ljósþrá sinni. Það er
eins og hann kunni að meta glöggt hvað
sólarljósið er þýðingarmikið og nauðsynlegt
lífi hans. Og hann fyrirverður sig ekki neitt
þarna úti í öræfaþögninni, að syngja sól-
fögru ljóðin sín af fullum hálsi. Þeim, sem
eru viðkæmir fyrir því, hvað öræfaþögnin
getur orðið þung og tilbreytingalaus verður
ljúft að hlusta á þróttmikinn og fagran söng
fylla upp hið auða rúm.
Eftir því, sem ein lífvera er þroskaðri að
viðkvæmni, eftir því vex ljósþrá hennar og
glöggleiki fyrir áhrifum sólarljóssins. Sum-
ir draga dár að viðkvæmni annara, en ekkert
er þó betur fallið til að lyfta sálinni á hærra
svið og auka gróður hennar, en þroskasæl
viðkvæmni. Þeir, sem eru sterkastir og
stranglega rjettlátastir, eru oft hinir auð-
virðilegustu þjónar falskrar ímyndunar.
Hreinleiki lífsins er ekki hávær eða með
mikilfenglegum brigðum, sem er hrúgað upp
til að láta bera sem mest á sjer; hann er
eins og hinn hægfara straumur lindarinnar,
sem á upptök sín í afdal fjalla og fer um
farinn veg og græðir alt er hún fer um. Hún
er eins og ljósið, sem alt lífgar og reisir við
lamaðan stofn.
Ólafur ísleifsson.