Eimreiðin - 01.09.1916, Blaðsíða 76
232
EGGERT BRIEM: UM HARALD HÁRFAGRA. Frásagnir
Heimskringlu og annarra fornrita vorra. Rvík 1915.
Þetta er allmikið rit, nál. 10 arkir í stóru broti, og mun höf. hafa
gefið það út á eigin kostnað. Er það nýlunda, er um slíkt rit er að
ræða, er ekki má vænta neinnar verulegrar sölu á, allrasízt svo, að
nokkur hagnaður verði af útgáfunni, heldur þvert á móti stórtap. En
ekki er það síður nýlunda nú um stundir, að sjá slíkt rit frá hendi
manns. sem annars hefir mest fengist við búnað og búfræði, þótt til
hafi verið menn fyr á öldum á íslandi, sem ekki létu sér svipað fyrir
brjósti brenna. En slíkt mun þó alveg sérkennilegt fyrir íslendinga,
eins og fleira, er að bókmentastörfum lýtur. Þó er hér um meira að
ræða en þá almennu sagnaritun, sem margir íslendingar hafa verið
svo leiknir í, því þetta rit er fullkomið vísindarit, sem ber bæði vott
um mikinn skarpleika og óvenjulega rannsóknarþrá.
Eins og kunnugt er, hafa ýmsir útlendir fræðimenn, aðallega norsk-
ir sagnfræðingar, ritað allmikið um Harald hárfagra og þær miklu bylt-
ingar, er urðu í landsstjórn og á högum manna, er Haraldur braut all-
an Noreg undir sig og gerðist þar einvaldskonungur. Hafa þeir lítt vilj-
að hlíta frásögn Snorra og annarra íslenzkra sagnaritara um þá viðburði,
heldur mjög borið brigður á trúverðugleik þeirra, og viljað skýra þetta
á annan veg, sem þeim þykir meiri líkindi til. En E. Br. tekur sér hér
fyrir hendur að rannsaka á ný þessar ritningar allar, og sýna fram á,
að fræðikenningar þessara manna séu ýmist bygðar á misskilningi á forn-
ritum vorum eða algerlega í lausu lofti og því helber heilaspuni. Og hon-
um tekst þetta yfirleitt svo vel, að ekki er sýnilegt annað, en að skýr-
ingar hans muni velli halda gegn vefengingum og kenningum hinna norsku
fræðimanna, sem þó sannarlega eru engar liðleskjur, heldur stórmerkir
vísindamenn, þó þeim hafi sýnilega skjátlast í þessum greinum. Vér fá-
um ekki betur séð, en að skýringar höf. á »Haraldsrétti« (sem hann svo
kallar) og á orðinu »óðal« séu yfirleitt sennilegar og betri en nokkuð
annað, sem enn hefir verið um þetta ritað. Og athuganir hans og ástæð-
ur eru víða hvar svo skarplegar,' að meira þarf en getgátur einar og
heilaspuna til að hrinda þeim af stóli. — Aftur eru sumir aukakaflar,
eins og t. d. kaflinn um ísland, meira athugaverðir, og þar ýmsar ó-
rökstuddar staðhæfingar.
Hér er svo myndarlega tekið svari hinna fornu sagnaritara vorra,
og þá einkum hins frægasta þeirra: Snorra Sturlusonar, að ritgerðin
hefði að vísu átt að hljóta verðlaun úr sjóði Jóns Sigurðssonar — jafn-
vel fremur en nokkur önnur ritgerð, sem hingað til hefir verðlaun hlotið
úr þeim sjóði. Því ekkert getur verið í betra samræmi við tilgang þess
sjóðs, en vel samin vörn fyrir sagnáritun íslendinga. Hér ætti ekki að
koma til greina, hvort nefndin er samdóma höf. eða ekki um einstök
atriði. t’að kemur ekki málinu við, ef ritgerðin er vísindalega samin,
eins og hún óneitanlega er. Slík misbeiting á umboði því, sem alþingi
hefir falið nefndinni, má ekki eiga sér stað óátalin. V. G.