Kirkjuritið - 01.12.1947, Page 43
KirkjuritiS.
Ræða Ólafs Lárussonar.
311
Stétt, sem unnið hafði það menningarstarf, sem presta-
stéttin íslenzka hafði unnið, og verið menntamálum þjóð-
ar sinnar jafn þörf og hún, verðskuldaði, að reynt yrði
eftir föngum að veita henni sjálfri sem beztan undirbúning
undir starf sitt. Að því var stefnt með stofnun Prestaskól-
ans. Þessvegna var stofnun skólans merkisviðburður í
sögu menntamála þjóðarinnar, atburður, sem vert er að
minnzt sé. Forseti guðfræðideildarinnar, próf. Ásmundur
Guðmundsson, mun minnast Prestaskólans, starfs hans og
starfsmanna, á samkomu þessari. 1 þeim fáu orðum, sem ég
tala hér og nánast eru einskonar inngangur að erindi hans,
þótti mér maklegt að minnast hinna, sem á undan
fóru, fyrirrennara prestaskólamannanna, starfs þeirra
og starfskjara. Það var á grundvelli þeim, er þeir þrátt
fyrir ófullkominn undirbúning höfðu lagt, sem hinir, er á
eftir komu og betur var að búið að því leyti, unnu sitt starf.
Prestaskólamennirnir héldu áfram menningarstarfi hinna
eldri manna og hafa haldið því fram allt til þessa dags.