Prestafélagsritið - 01.01.1921, Blaðsíða 150
Prestafélagsritið.
Gnðsriki er nálægt.
145
»Tíminn er fullnaður og guðsriki er nálægt«. f*að er
eins og eitthvað þrýsti okkur mönnunum sérstaklega, nú
á þessum síðustu timum, til þess að hlusta dýpra heldur
en verið heíir undanfarið um langt skeið. Heimsstriðið á
eflaust mikinn þátt í þvi. Mennirnir hafa rekið sig á það
átakanlegar en nokkru sinni fyr, að jörðin verður þeim
að kvalastaðnum, er þeir sleppa hönd guðs. f*egar veldi
hins illa í brjóstum þeirra skyggir á ríki hans, breiðist
yfir myrkur og auðn og fögnuður lífsins snýst í neyð-
aróp. Augliti til auglitis við dauða sjálfra sín eða nánustu
vina sinna hefir þeim lærst það, að snúa hugum sínum
frá efnisheiminum til æðri veraldar, þar sem nýtt líf muni
taka við og tilgangsleysið hverfa fyrir lögmáli þroska og
samhljóðunar. Sálir þeirra hafa hrópað í hæðir gegnum
myrkrin til lifanda guðs, er hefði þá og alla tilveruna í
hendi sér, því að annars væri alt hégómi, aumasti hé-
gómi, engar framfarir, ekkert samhengi, engin saga til.
Og drottinn lætur ásjónu sína lýsa yfir þá. f*að sem bezt
er í þeim, kemur auga á guð að baki sögunnar og við-
burðanna og leitar hans örþreytt af hörmungunum. Peir
eignast næmari og næmari skilning á því, að mannssálin
og guð er það eitt, sem vert er að lifa fyrir. Þeim verður
kærast það, sem einfalt er og óbrotið, kærara heldur en
öll ytri heimsmenningin margbrotna. Þeir sjá eitthvað af
sannleikanum í orðunum: »Nema þér snúið við og verðið
eins og börnin, komist þér alls ekki inn í himnaríki«.
Barnið í sálinni, sem hvarf um stund inn í skuggaheim
hennar, kemur aftur til móts við guð sinn og föður. Og
þjáningar mannkynsins verða því hjálp til þess, að skilja
einnig þá kvöl, er hefir siðferðilegt gildi. Sá sem fús er
að liða og fórna sér fyrir aðra, á mestan kærleika. Boð-
skapurinn um Krist og hann krossfestan verður, eins og
fyr, þungamiðja kristindómsins. í fórnardauða hans er
alt fagnaðarerindið um kærleika guðs dregið saman í
eitt. Ljósið frá Jesú á krosssinum sendir birtu guðs út í
myrkrin yfir jörðunni.
10