Eimreiðin - 01.05.1970, Blaðsíða 8
72
EIMREIÐIN
Það, sem hér hefur verið sagt, er ekkert geip, hvað; þá með
öllu staðlausir stafir. Hlutur skálda og rithöfunda að fornu og
nýju hefur verið slíkur í sögu þjóðarinnar, að án hans er vissu-
lega vafasamt, hvort hún hefði lifað; af þrengingar og píslir
liðinna nauðalda, og þó að hún hefði gert það, einhverjar þúsundir
manna tórt dreifðir um hið mikla og veglausa land, ætti hún sér
áreiðanlega ekki háþróaða þjóðtungu, í öllum grundvallaratriðum
þá sömu og þeir töluðu, sem hér námu land, heldur mundi hún
tala margar og allsundurleitar mállýzkur, en danska vera ritmálið
og hún ein notuð í kirkjum og skólum. Þjóðin hefði og ekki átt
sér samfelldar sögulegar heimildir, heldur hefði þurft að tína sam-
an dreifðar og orðfáar staðreyndir upp úr skjölum danskra stjórn-
arvalda, dönskum verzlunarbókum og gömulm bréfum. Hún hefði
því ekki átt sér neitt ótvírætt og metnaðarvekjandi einingarafl,
tímabil framfaranna komið seint og um síðir og orðið smástígt og
mjög á annan veg og um flest veigaminna og að öllu ómerkara en
það varð, — ef til vill engin barátta verið háð fyrir stjórnmálalegu
sjálfstæði og staða íslands verið á því sviði hliðstæð því, sem hún
er á landabréfinu, sem sé nokkurn veginn mitt á milli Færeyja og
Grænlands.
ísland hefur ekki aðeins öðlazt fullt sjálfstæði. Það er fullgildur
og furðu vel virtur aðili á þingum hinna sameinuðu þjóða heims
og virkur þátttakandi í ýmsum öðrum samtökum, sem stefna að
heillavænlegri samvinnu og samhjálp hinna ýmsu þjóða, sem þar
hafa tekið; höndum saman, og hvarvetna nýtur það velvildar og
virðingar. íslendingar geta og af því státað, að eiga sér Nóbelskáld,
— og fleiri skáld þeirra hafa getið sér orðstír í umheiminum. Þá hafa
og myndlist, tónlist og húsagerðarlist blómgazt svo ört á síðustu
sex áratugum og þó einkum á síðasta aldarfjórðungi, að undrum
sætir, enda fjöldi iðkenda þessara lista orðinn svo mikill, að ein-
ungis lítið brot þjóðarinnar minnist nafna ýmissa þeirra lista-
manna, sem þó hafa getið sér nokkurn orðstír. En þrátt fyrir allt
þetta er engan veginn svo trygg, sem flestir munu gera ráð fyrir,
framtíð íslenzkrar tungu og menningar — og þá ekki heldur ís-
lenzks sjálfstæðis og þeirrar virðingar, sem þjóðin nýtur nú, þrátt
fyrir smæð sína og ótrygga atvinnuvegi og efnahag.