Eimreiðin - 01.05.1970, Blaðsíða 7
bókmenntirnar og þjóðfélagið
71
kreppti harðar en nokkru sinni áður, hlotið hugsvölun þeirrar guð-
legu snilli og andagiftar harmkvælaklerksins, er veitti henni styrk
til að horfast í augu við þann slynga sláttumann, sem sló í múga
ár eftir ár á velli íslenzks mannlífs, — og segja við hann af
öruggri vissu og heitu hjarta: „Kom þú sœll, þegar þú vilt.“
Svo erum við þá komin að því tímabili sögunnar, sem kallað
hefur verið íslenzk endurreisn. Þar ber okkur að hyggja jafnt að
tvennu:
Við vitum, að án hinna fornu bókmennta okkar hefði Eggert
Ólafsson aldrei reynzt sá strangþjóðlegi bjartsýnismaður á gæðj
landsins og framtíð þjóðarinnar og hann var — og Jón á Bægisá
aldrei glímt við Paradísarmissi Miltons eða Messíasarkvæði Klop-
stocks, — og þó að hann hefði gert það, hefði hann ekki fundið það
form og málfar, sem fengi orkað því, að þessar risakvið'ur enskra
og þýzkra bókmennta mættu verða gæddar í sínum íslenzka búningi
þeim anda og yndisleik, sem fengi tendrað það skærasta ljós, sem
kviknað hefur á kveik íslenzkrar tungu. Svipuðu máli gegnir um
alla þá undursamlega fríðu og fræknu fylkingu, sem fram kom í
íslenzku þjóðlífi, þar sem skáldin léku göngulag sóknarinnar, slógu
þá strengi, er hrærðu þjóðarhjartað.
Hið annað, sem að ber að; hyggja og ekki má gleymast er sú
óhagganlega staðreynd, að hvorki hinn bjarti og styrki rómur Jóns
Sigurðssonar né hreimar skáldhörpunnar hefðu verið heyrðir, ef
þjóðin — alþýðan — hefði ekki verið slík sem hún var. Þjóðsögur
Jóns Árnasonar eru ekki sízt dýrgripur fyrir þær sakir, að þær gefa
okkur glögga hugmynd um tungutak fjölmargra alþýðumanna um
Hnd allt — og um frásagnargáfu þeirra og frásagnarleikni, og
hinn mikli sægur lausavísna, þula, kvæða og kvæðabrota, sem
flaug landshornanna á milli, talar sínu máli. Þegar rödd foringj-
anna eða hörpuómur skáldanna kvað við í fjarska, leit hann upp
°g hlustaði gegnum bárugjálfur eða brimgný, útskagabóndinn, sem
löngum sat og keipaði í kænu sinni, og hinn lotni heiðarbúi með
°rf, torfljá, pál eða heykrók í hendi lagði eyrun við, lyfti augn-
frár höfði eins og hungraður hestur, sem finnur gróð.urilm leggja
fyrir vit sér. Svo vakandi voru bæði konur og karlar í víkum norð-
ur á Hornstöndum og austu í Jökuldal og Axarfjarðarheiði, að þau
í tötrum sínum hlustuðu eftir dyninum frá frelsisunnandi, en
fjötruðum þjóðum víðsvegar um heim og lögðu fæð á „hundingj-
ann, sem búann bítur . . .“