Uppeldi og menntun - 01.01.1996, Blaðsíða 61
SIGRÚN AÐALBJARNARDÓTTIR, KRISTJANA BLÖNDAL
Hvort sem við á að bera saman þessi hlutföll eður ei er áhyggjuefni hve hátt hlutfall
unglinga reykir.
Fjölskyldugerð unglinganna virðist ekki skipta miklu máli um reykingar þeirra.
Þó kemur nokkur munur fram hjá stúlkum, þar sem algengara er bæði í 9. og 10.
bekk að þær stúlkur hafi reykt oftar en tvisvar sem búa hjá móður og sambýlis-
manni en í öðrum fjölskyldugerðum. Munur reynist hins vegar ekki á reykingum
pilta eftir fjölskyldugerð. Þess má geta að áfengisneysla stúlkna og pilta eftir fjöl-
skyldugerð sýndi svipaðar niðurstöður og hér koma fram (Sigrún Aðalbjarnardóttir
og Kristjana Blöndal 1995:43). Velta má því fyrir sér hvort hinn algengi mótþrói
stúlkna í samskiptum við móður vegna stjúpföður (sbr. Hetherington 1988) birtist í
áhættuhegðun þeirra.
Viðhorf unglinganna til tóbaksreykinga reynast svipuð á milli ára. Þannig er
tæpur helmingur þeirra bæði árin mjög á móti því að fólk prófi að reykja. Einnig
kemur í ljós, eins og raunar var búist við, að reykingar unglinganna sjálfra skipta
máli um viðhorf þeirra til reykinga fólks. í 9. bekk eru þeir unglingar, sem ekki hafa
prófað að reykja eða hafa prófað það í 1-2 skipti, mest á móti reykingum fólks, þá
þeir unglingar sem ekki hafa prófað að reykja í 9. bekk (þegar fyrri könnunin fór
fram) en hafa reykt þrisvar sinnum eða oftar þegar þeir eru komnir í 10. bekk
(þegar seinni könnunin fór fram) og minnst á móti reykingum eru þeir sem þegar
hafa prófað að reykja þrisvar sinnum eða oftar í 9. bekk. Þegar unglingarnir eru
komnir í 10. bekk kemur einnig fram munur á viðhorfum eftir neysluhópum. Eins
og áður eru þeir unglingar mest á móti reykingum sem aldrei hafa reykt eða reykt í
1-2 skipti. Aftur á móti hefur sú breyting átt sér stað að ekki er munur á viðhorfum
þeirra unglinga sem hafa reykt þrisvar sinnum eða oftar, hvort sem þeir hófu slíkar
reykingar í 9. eða 10. bekk. Athyglisvert er að svipuð tengsl komu fram í fyrri
athugun á milli viðhorfa unglinga til neyslu áfengis og þeirra eigin áfengisneyslu
(Sigrún Aðalbjarnardóttir og Kristjana Blöndal 1995:48-51).
Ekki kemur á óvart að því oftar sem unglingarnir telja vini sína og foreldra
reykja þeim mun líklegri eru þeir til að reykja sjálfir (sjá t.d. Anderson og Henry
1994). Þessi tengsl eru sterkari ef um er að ræða reykingar vinahópsins en foreldra
og kemur sú niðurstaða heim og saman við niðurstöður annarra rannsókna (t.d.
Duncan o.fl. 1995). Eflaust hafa reykingar vina á unglingsárum mikil áhrif á reyk-
ingar unglingsins. Ekki er þó ólíklegt að unglingar, sem reykja, velji sér vinahóp
sem hefur svipaða afstöðu til reykinga og þeir sjálfir, en algengt er að vinahópurinn
sé endurnýjaður á unglingsárum (Youniss 1980).
Tæpur helmingur unglinga telur fólk taka töluverða eða mikla áhættu með því að
prófa að reykja, en nær allir þegar spurt er um áhættu við að reykja 20 sígarettur
eða meira á dag. Unglingarnir virðast því gera sér góða grein fyrir þeirri áhættu
sem fólk tekur með því að reykja þegar um er að ræða miklar reykingar. Margir
hafa þó milda afstöðu til þess að fólk prófi að reykja þrátt fyrir hve ávanabindandi
reykingar eru og er það umhugsunarefni fyrir forvarnarstarf.
59