Uppeldi og menntun - 01.01.1996, Blaðsíða 108
KYNFERÐI, JAFNRÉTTI OG ÞROSKI BARNA
mótun um þessi málefni og skrifuð um hana skýrsla (Menntamálaráðuneytið 1990).
Á árinu 1992 var sett á laggirnar samnorrænt jafnréttisverkefni, „Nord-Lilia", og
var markmið þess að efla umfjöllun um jafnréttismál í kennaramenntun (sjá m.a.
Arnesen 1994 og 1995). Þátttakendur voru kennarar á ýmsum skólastigum sem
höfðu jafnréttisverkefni á dagskrá í kennslu sinni. Tók höfundur þessarar greinar
þátt í norræna samstarfinu og var fyrrnefnd atferlisathugun kennaranema eitt af
íslensku verkefnunum sem samstarfið byggðist á.
I grein þessari er annars vegar fjallað um fræðilegt efni sem kynnt er á
námskeiðinu í þróunarsálarfræði og hins vegar atferlisathugun kennaranemanna á
árunum frá 1992 til 1994 og úrvinnslu úr henni. Umfjöllunin um kynferði og
jafnrétti á námskeiðinu takmarkast mjög af þeim römmum sem námsgreinin og
nemendafjöldi setur. Þessum skrifum er einkum ætlað að vera grunnur frekari
umræðu og umfjöllunar um þetta efni í kennaranámi.
KYNFERÐI OG ÞROSKI BARNA
Fræðimenn hafa lengi beint athyglinni að mun á þroska stúlkna og drengja. Erfitt
hefur verið að festa hendur á áþreifanlegum mun á andlegri hæfni stúlkna og
drengja nema á mjög afmörkuðum sviðum eða aldursskeiðum. Báðir hópar sýna
svipaða getu á greindarprófum þegar á heildina er litið en einhver munur er á
einstökum þáttum, t.d. virðast drengir hafa þróaðri rúmskynjun en stúlkur en þær
eru aftur á móti fyrri til í málþroska (Bee 1994:184—186). Stúlkur hafa, þegar á heild-
ina er litið, sýnt betri námsárangur í skóla (sjá t.d. Hansen 1989:65), og má m.a.
benda á árangur íslenskra stúlkna á samræmdum grunnskólaprófum við lok 10.
bekkjar (Samræmd próf ... 1996). I rannsóknum hefur komið fram skýr kynjamunur
á árásarhneigð, en mun algengara er að drengir séu árásargjarnir í hegðun (Bee
1994:439, Serbin o.fl. 1993:9).
Á seinustu árum hefur athyglin einkum beinst að því að rannsaka hvernig
kynbundið atferli, viðhorf og tengsl við aðra þróast í stúlkna- og drengjahópum.
Stúlkur virðast eiga auðveldara með að aðlagast reglum en drengir og vera tillits-
samari í samskiptum en drengirnir þykja fyrirferðarmeiri og sjálfstæðari. Dreng-
irnir fá í heild meiri athygli kennara í skólastarfi og fleiri viðbrögð, jákvæð og
neikvæð. Leikir eru ólíkir og vináttutengsl eru gjarnan með ólíkum hætti (sjá m.a.
Bee 1995:340-341, Reisby 1994:4, Maccoby 1988). Áhugamál, leikir og samskipta-
mynstur virðast vera með ólíkum hætti meðal stúlkna og drengja, valdakerfið er
ólíkt í þessum hópum og stúlkur samþykkja frekar skoðanir annarra en drengir (sjá
m.a. Maccoby 1988:759). Töluvert hefur verið gert að því að leita skýringa á þessum
mun. Margt bendir til að munurinn sé að mestu áunninn, hann megi rekja til
mismunandi félagsmótunar og uppeldis barna eftir kyni, til kynbundinna fyrir-
mynda og staðlaðra ímynda, og til þess valdamisvægis sem ríkir í samfélaginu.
I sálarfræði er fjallað um þróun persónuleikans og sjálfsvitundar frá mismun-
andi sjónarhornum. I ýmsum kenningum og rannsóknum hefur athyglin beinst sér-
staklega að þeim áhrifum sem kynferðið hefur á sjálfsvitund einstaklingsins (sjá
m.a. Guðnýju Guðbjörnsdóttur 1994a).
106