Uppeldi og menntun - 01.01.1996, Blaðsíða 119
RAGNHILDUR BJARNADÓTTIR
í umfjöllun um kynferði og jafnrétti koma upp hugmyndafræðileg vandamál
og margs konar mótsagnir sem óhjákvæmilegt er að skoða vel og takast á við ef
umræðan á ekki að verða yfirborðsleg. Stundum er lögð áhersla á að kynjamunur
sé eðlilegur og æskilegur, hvort sem hann er af menningarlegum eða líffræðilegum
toga. Þá er m.a. rætt um sérstaka kvenlega eiginleika og karlmannlega eiginleika,
jafnvel sérstakt „stúlknauppeldi" og „drengjauppeldi" (pigepædagogik, drengepæda-
gogik, sjá m.a. Reisby 1995). Þessi áhersla er varhugaverð. Kynjamunur er reyndar
' fyrir hendi og er bæði af líffræðilegum og menningarlegum / félagslegum toga. En
stúlkur og drengir eru einstaklingar með mjög margbreytilega eiginleika og hætt er
við að ólíkar uppeldisáherslur vinni gegn persónulegum þroska og ýti undir að
stöðluð viðmið festist í sessi. I uppeldi verður líka að leggja áherslu á að drengir og
stúlkur læri jafnt mannlegar dyggðir eins og tillitssemi, umhyggjusemi, einlægni og
sjálfstæði í skoðunum, og að þetta séu sammannlegir eiginleikar. Hvorki stúlkur né
drengir, karlar né konur, hafa einkarétt á ákveðnum mannlegum eiginleikum,
áhugamálum eða viðfangsefnum. Og það skiptir máli að börn þrói með sér
fordómalaus viðhorf til þess hvers þau sjálf eru megnug og hvað þeim leyfist, en
verði ekki háð löngu úreltum höftum og hugmyndum um það hvað felst í því að
vera kvenkyns eða karlkyns.
í tveimur íslenskum skólum hafa verið unnin skipulögð jafnréttisverkefni þar
sem markmiðið var að stuðla að sveigjanlegum viðhorfum nemenda til launaðra og
ólaunaðra starfa og jafnframt til eigin getu. Annað var eitt af íslensku Nord-Lilia
verkefnunum og var unnið í Grandaskóla (sjá Arnesen 1995:58), en hitt var unnið í
Myllubakkaskóla á árunum 1991-1992 (Guðný Guðbjörnsdóttir 1994b:29-52). Sam-
kvæmt þeim rannsóknum og fræðilegu efni, sem hér hefur ítrekað verið vitnað í
(Maccoby 1988, Serbin o.fl. 1993), eru slík verkefni mjög þörf þar sem þau eru til
þess fallin að efla skilning nemenda og gagnrýnið viðhorf til kynbundinna við-
miðana og væntinga sem hugsanlega gætu haft áhrif á þeirra eigin persónulega
þroska og stefnumótun í lífinu.
LOKAORÐ
Á árunum 1995 og 1996 hafa kennaranemar ekki gert athugun á samskiptum í
skólastofunni eins og þeir gerðu á árunum 1992-1994. Engu að síður hefur verið
lögð áhersla á að fjalla um tengsl kynferðisvitundar, jafnréttis og skólastarfs á nám-
skeiðinu í þróunarsálarfræði og tvö af tíu ritgerðarefnum á námskeiðinu tengjast
þessu efni. Greinilegt er að áhugi á kynferði og jafnrétti er töluverður þegar efnið er
á dagskrá, en hætt er við að þetta sjónarhorn gleymist að mestu seinna í náminu ef
tekið er mið af upplýsingum frá nemum á þriðja ári (sjá bls. 115). Athyglisvert var
að einungis lítill hluti nemanna gerði jafnréttismál að meginþræði í viðfangsefnum
sem þeir unnu með síðar í kennaranáminu. Engu að síður gafst þeim þar oft svig-
rúm til að velja um áherslur í verkefnum. Það er líka umhugsunarvert og í raun
áhyggjuefni að flestir kennaranemar á þriðja ári, eða 70% þeirra, telja að umfjöllun
um kynferði og jafnrétti sé afar lítil utan námskeiðsins í þróunarsálarfræði. Kenn-
aranemar bentu auk þess á að í ljósi þess að 80-90% kennaranema eru konur, sé
117