Uppeldi og menntun - 01.01.1996, Qupperneq 110
KYNFERÐI, JAFNRÉTTI OG ÞROSKI BARNA
Kenningar, sem teljast til atferlisstefnu, og svokallaðar námskenningar beina
athyglinni að lærdómi, væntingum og áhrifum fyrirmynda. Börn eru talin læra
kynbundna hegðun vegna þess að þeim er umbunað fyrir hegðun sem telst „rétt"
eða viðeigandi en fá neikvæð viðbrögð við óæskilegri hegðun, og einnig með því að
taka einstaklinga af sama kyni sér til fyrirmyndar.
Vitþroskakenningar leggja áherslu á að þróun kynferðisvitundar sé tengd
almennum vitþroska og sé vitrænt aðlögunarferli. Samkvæmt rannsóknum gera
börn sér snemma grein fyrir því að þau eru af ákveðnu kyni en það er ekki fyrr en
nokkru síðar, eða á aldrinum fjögurra til sex ára, að þeim er orðið ljóst að kynferðið
er varanlegt, fram að því finnst t.d. stúlkunni vel koma til greina að hún verði
strákur á unglingsárum eða karlmaður sem fullorðin (sjá Bee 1995:301, Serbin o.fl.
1993:3). Grundvallaratriði er að börnin öðlast skilning á því að um tvö kyn er að
ræða og að þau tilheyra öðru kyninu, og verða þar með mjög áhugasöm um að læra
hvernig þeim beri að hegða sér í samræmi við þær upplýsingar.
Nýlegar kenningar hafa verið nefndar „kynskemakenningar" og taka þær mið
af bæði námskenningum og vitþroskakenningum og styðjast við nokkuð umfangs-
miklar rannsóknir. „Kynskema" táknar alla vitneskju og hugmyndir einstaklings
um kynferði og hvað felst í því að vera af ákveðnu kyni. Kynskemað þróast með
nýrri vitneskju og auknum skilningi. Þegar börn átta sig á því að fólk skiptist í tvo
hópa eftir kyni fara þau að tengja ákveðna hluti og hegðun við hvorn hópinn um
sig. Slíkt gerist um tveggja ára aldur eða jafnvel fyrr og um fjögurra ára aldur
virðast þau hafa öðlast nokkuð stöðugar - og jafnframt staðlaðar - hugmyndir um
fólk af eigin kyni, hvernig það hegðar sér og klæðir, hvað því finnst skemmtilegt
o.s.frv. Síðar öðlast þau svipaðar hugmyndir um gagnstætt kyn og vitneskjan fer að
verða sveigjanlegri. Þær grundvallarhugmyndir, sem börn hafa um „sinn hóp" og
eigið kynferði á hverjum tíma, virðast hafa mjög víðtæk áhrif á afstöðu barnanna og
langanir. M.a. vilja þau yfirleitt frekar leika sér við börn af sama kyni og þau sjálf en
af gagnstæðu kyni. Þeim finnst eigið kyn merkilegra en gagnstætt kyn (Serbin o.fl.
1993:9-10). Einkum er áberandi að 6-12 ára börn sækjast eftir að vera í aðgreindum
hópum og eru gjarnan mjög fordómafull í garð hins kynsins. Þau virðast vera
upptekin af því að finna út hvaða reglur gilda um eigin hóp og læra að fara eftir
þeim. „Kynskemað" þróast og breytist með auknum þroska barnanna. Viðbrögð og
væntingar umhverfis hafa áhrif á þróunarferlið en nægja ekki til að útskýra það.
Vitræn ferli eru einnig að verki. Þær reglur, sem börn gera að sínum, eru einfaldar
og háðar stöðluðum ímyndum í byrjun en verða síðan sveigjanlegri og er það
þróunarferli háð vitþroska, eða skilningi á því að kynhlutverk þurfa ekki að vera
bindandi (Bee 1995:306, Serbin o.fl. 1993:17).
I þeim kenningum og rannsóknum, sem hér hefur verið minnst á, koma fyrir
mörg hugtök sem tengjast þróun kynferðisvitundar. Hugtökin kynhlutverk og
staðlaðar ímyndir um kynhlutverk koma oft við sögu. Margar rannsóknir leitast við
að varpa ljósi á „kynmótun" (sex typing eða gender typing) eða það hvernig kyn-
bundin hegðun og viðhorf þróast. Staðlaðar ímyndir, sem tengjast kynferði, eru
yfirleitt gagnrýndar þar sem álitið er að þær geti hamlað þroskamöguleikum ein-
staklinga (sjá m.a. Martin o.fl.1990). Ef rammarnir eru of þröngir fær einstakling-
108