Saga - 1969, Blaðsíða 8
4
ÖLAFUR EINARSSON
varðveitzt af einkabréfum eða öðrum gögnum frá þeim
einstaklingum, sem koma við sögu. Hér eru ekki að verki
nafntogaðir menn, sem voru fremstir í flokki í sjálfstæðis-
baráttunni, heldur einkum lítt kunnar persónur í þjóðar-
sögunni. Blöð og tímarit samtímans láta sig fremur litlu
skipta þessi fyrstu spor stéttarfélaganna. Þó verða þau
einna notadrýgst, er rekja skal stofnsögu samtakanna
undir lok aldarinnar. Flest þeirra félaga, er stofnuð voru
á þessu tímabili, lognuðust síðar út af, og sum voru mjög
skammlíf, og er tilviljunarkennt, hvort frumheimildir
hafa varðveitzt, t. d. fundargerðabækur, lög, félagatal o. fl.
Því verður oft að grípa til seinni tíma upplýsinga til að
fá heildarmynd af þróun stéttarfélaga. Þar er einkum að
ræða um endurminningar þátttakenda, blaðaviðtöl við þá
og afmælisgreinar. En gjalda verður varhug við gagn-
rýnislausri notkun þeirra, vegna þess hve seint þær eru
færðar í letur. Auk þessara heimilda er stuðzt við hag-
skýrslur, alþingistíðindi, uppsláttarrit, sagnfræðirit og
bókmenntaverk þessa tíma, eftir því sem meðferð efnisins
krefst.
Hin skipulagða hreyfing íslenzks verkafólks á sér ekki
langa sögu borið saman við verkalý'ðshreyfingu Evrópu
og Norður-Ameríku. Þrátt fyrir það hefur furðulítið ver-
ið ritað um fyrstu spor verkalýðshreyfingarinnar hér á
landi, enda falla fæðingarhríðir hennar í skuggann af
aðaldeiluefni landsmanna í lok 19. aldar. Hið eina, sem
birt hefur verið á prenti um sögu íslenzkrar verkalýðs-
hreyfingar á umræddu tímabili, er afmælisrit einstakra
stéttarfélaga og yfirlitsrit um íslenzk alþýðusamtök, „Ár
og dagar“, sem skrifað er í fréttaformi. Hér er stuðzt við
þessi rit, þar sem eldri heimildir skortir, en áður er leit-
azt við að prófa sannleiksgildi þeirra, eftir því sem kost-
ur er. í þessum ritum er varla vikið að heildarþróun ís-
lenzkrar verkalýðshreyfingar fyrir aldamót né heldur
reynt að skýra upphaf hennar. Þó hafa ýmsir höfundar
bent á, að brautryðjendur verkalýðsfélaga hérlendis hafi