Uppeldi og menntun - 01.01.2011, Qupperneq 15
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 20 (1) 2011 15
elSa S igr ÍÐUr JÓnSdÓtt i r
missa sjónar á höfuðtilgangi þess verkefnis sem kerfið snýst um. Auðvitað verður
að hafa viðmið og markmið en matskerfi má ekki taka völdin. Ég hef áhyggjur af því
að einföld afkastahvetjandi kerfi fái óþarflega mikil völd í skólastarfi, hvort heldur
það eru einkunnakerfi eða launakerfi. Kerfi sem eru afkastahvetjandi í launum skila
ekki endilega betri kennslu. Bónuskerfi í bönkum skiluðu betri afrakstri um hríð en
svo kom í ljós að þar stóð margt á brauðfótum; sumt má hugsanlega skrifa á reikning
hvatakerfanna. Það verður því miður ávallt togstreita milli einfaldra mælikvarða og
mikilvægustu hugsjóna.
Breytingar á skólastarfi
Þótt þú hafir horft til framtíðar hefur þú einnig lagt rækt við sögu menntunar.
Ég er sannfærður um að fátt sé gagnlegra en að rýna í sögu hugmynda og skóla-
starfs til þess komast að niðurstöðu um það í hverju menntun felst og hverju ætti að
breyta og hverju ekki í skólastarfi; eða til að átta sig á því hvert breytingar muni leiða
og hverjar þeirra muni ná fótfestu. Athugun á þróun skólakerfa sýnir ákveðna þætti
sem breytast lítið og aðra sem eru breytilegir. Sum gildi og viðfangsefni menntunar
breytast ekki öldum saman, annað tekur miklum breytingum frá ári til árs. Í bókinni,
Tinkering Toward Utopia, sem er einkar áhugaverð bók um umbætur í menntamálum,
velta höfundarnir, Tyack og Cuban, fyrir sér umbótastarfi og skólaþróun. Þeir lýsa
merkilegum, bandarískum umbótahugmyndum, hvernig þær risu og hnigu. Sumar
þessara hugmynda voru vel hugsaðar og útfærðar, um þær var gott samkomulag og
þær voru vel studdar og fjármagnaðar. Þær gengu upp um hríð en gengu svo oftast til
baka. Skólaþróunin gengur í bylgjum.
Sumir myndu telja þetta svartsýni.
Nei, það má alls ekki líta svo á, það verða sífelldar framfarir, en ég tel að skóla-
sagan hvetji okkur til að skilja hvaða öfl ráði ferðinni einmitt til þess að meira vinnist.
Breytingar ganga aldrei alla leið til baka, ýmislegt lifir. En það er nauðsynlegt að átta
sig á hvað gerist þegar hugsjónafólk er að vinna hugmynd brautargengi m.a. hvað
vinnur gegn henni. Ekki má vanmeta hve mikið byggist á hugsjónaeldinum sem er
oft, kannski alltaf, nauðsynlegur til að koma hugmynd í framkvæmd og það þarf að
gera sér grein fyrir hvað þarf til að hún lifi, t.d. að hvaða marki hún sé bundin þeim
einstaklingum sem ýta henni úr vör. Lítið dæmi er svokallaður opinn skóli í Fossvogs-
skóla á áttunda áratugnum. Þeir sem hrundu honum af stað þekktu hugmyndirnar vel
og vissu að hverju þeir stefndu, en smám saman skipti um fólk, nýjabrumið fór af og
ákveðin þreyta kom í útfærsluna. Nú er aftur unnið að skyldum hugmyndum. Í stað
þess að tala um svartsýni skulum við reyna að skilja að það er ekki nóg að brydda upp
á nýjungum heldur er nauðsynlegt að vita hvernig þeim verður tryggt líf, þ.e.a.s. þeim
sem eru góðar. Dæmi um málefni sem mér er hugstætt er sú mikla áhersla sem lögð
hefur verið á skilning í nánast öllum umbótum á skólastarfi öldum saman. Alltaf hefur
átt að snúa frá villu utanbókarnáms til náms sem byggt er á skilningi, en þrátt fyrir
síendurteknar tilraunir til að efla skilning hefur námið iðulega orðið að marklausu
utanbókarnámi, a.m.k. að hluta. Þeir sem leggja áherslu á skilning í skólastarfi verða