Uppeldi og menntun - 01.01.2011, Page 33
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 20 (1) 2011 33
anna magnea HreinSdÓttir og JÓHanna einarSdÓttir
í pörum en það gefur möguleika á umræðu um starfið. Þessi samskipti stuðla að
þjálfun og umræðu um uppeldi og menntun. Kennararnir líta á sig sem rannsakendur
sem skrá starf sitt með börnunum sem einnig er litið á sem rannsakendur. Upphafs-
maður starfsaðferða leikskóla sem kenndir eru við Reggio Emilia, Malaguzzi (1993),
lagði áherslu á ígrundun og umræðu meðal starfsfólks um starfið sem lykilatriði
í uppeldisfræði Reggio Emilia-leikskóla. Sífelld endurmenntun kennara fer fram í
daglegu starfi í samræðum við samstarfsfólk þar sem áhersla er lögð á umburðar-
lyndi í skoðanaskiptum (P. Cavazzoni munnleg heimild, 26. maí 2008). Skráningar
(e. pedagogic documentation) eru mikilvægur þáttur í daglegu starfi. Verkefni
barnanna og vangaveltur eru skráðar með ýmsum hætti og kennararnir nýta upp-
lýsingarnar til að undirbúa starfið með börnunum (Kennedy, 1999). Ferlið við skrán-
inguna er ekki einungis fólgið í tæknilegri aðferð heldur enn frekar í viðhorfi til starfsins
og til barna (D. Lanzi munnleg heimild, 27. maí 2008). Athyglin beinist helst að því
hvernig börn læra og hvernig þau skipuleggja nám sitt og þekkingu. Skráninguna
nota kennarar til að kynnast börnunum betur og því hvernig þekkingarleit þeirra fer
fram. Því er skráning gott tæki fyrir kennara til að auka við þekkingu sína á börn-
unum og einnig er hún eitt mikilvægasta endur- og símenntunartæki þeirra.
Áhugi barnahópsins þróar nám og kennslu í Reggio Emilia-leikskólum og geta
viðfangsefni tekið á sig ólíkar myndir og þróast í ýmsar áttir, allt eftir áhugasviði
barnanna. Því er námskrá höfð fljótandi (e. emergent curriculum) en það merkir að oft
eru ekki sett fyrirfram ákveðin markmið til að vinna eftir heldur er verkefninu leyft
að þróast eftir hugmyndum barnanna. Gengið er út frá því að uppbygging þekkingar
sé hópvinna þar sem börnin þurfi góðan tíma til að viðra hugmyndir sínar (Rinaldi,
2006). Því er unnið í þemavinnu sem metin er með skráningu.
Lögð er áhersla á að umhverfi skólans sé þægilegt og örvandi og er sköpunarferli
barnanna í fyrirrúmi. Samkvæmt Reggio Emilia-starfsaðferðunum hafa börn rétt á því
að nota margvíslegan efnivið til að koma vitneskju sinni til skila (e. the child as a
communicator) og eru hugsanir þeirra og vitneskja gerð sýnileg á ýmsan hátt. Hönnun
og notkun rýmis á að hvetja til samskipta og tjáningar og er litið á umhverfið sem þriðja
kennarann (e. the environment as the third teacher) ásamt leikskólakennaranum og
barnahópnum.
Framlag foreldra er álitið lykilatriði í leikskólum sem starfa eftir Reggio Emilia-
aðferðunum og tekur það á sig margar myndir. Foreldrar eru virkir þátttakendur í
námi barna sinna og hjálpast að við að huga að velferð allra barna í leikskólanum
(e. the parents as partners). Hugmyndir þær sem foreldrar koma á framfæri í leikskól-
anum eru mikils metnar og eins þau skoðanaskipti og umræður sem fram fara milli
foreldra og kennara og eru til þess fallnar að þróa nýjar aðferðir við nám. Mikilvægt
er talið að framlag foreldra breyti starfinu og hafi áhrif (C. Giudici munnleg heimild,
30. maí 2008). Kennarar líta ekki á framlag foreldra sem ógn heldur sem góða viðbót
við leikskólastarfið. Því er lögð áhersla á að foreldrar og starfsfólk gefi sér tíma til
samræðna þegar komið er með börnin og þau sótt og þau tækifæri sem gefast eru
nýtt til samráðs. Tenging leikskólans við samfélagið kemur þannig í veg fyrir að leik-
skólinn einangrist.