Uppeldi og menntun - 01.01.2011, Page 38
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 20 (1) 201138
ÓlÍKar áHerSlUr Í leiKSKÓlaStarfi
Stjórnendum leikskólans var það fullljóst að mikilvægt væri að sem flestir kæmu að
gerð skólanámskrár en sökum annríkis og manneklu var framangreind leið farin til
þess að „fá kjöt á beinið“, eins og leikskólastjóri Kletts orðaði það. Á grunni þeirrar
vinnu gat starfsfólk gert breytingar og sett sitt mark á skólanámskrána. Foreldrum var
ekki boðið að taka þátt í gerð hennar né börnunum. Það sama átti við í leikskólanum
Gullkistunni en þar hafði leikskólastjórinn samið skólanámskrána í stórum dráttum
eftir þeim áherslum sem hann taldi réttar og kynnt þær starfsfólki. Í viðtölum við leik-
skólastjóra Gullkistunnar kom fram að tímaskortur, þekkingarleysi og óöryggi for-
eldra var helsta ástæða þess að þeir voru ekki kallaðir til. Foreldrafélag var starfandi
við báða leikskólana en stjórnir þeirra fengu hvorki tækifæri til þess að lesa drög að
skólanámskrá yfir né komu foreldrar að endurskoðun á henni. Ekki var gert ráð fyrir
aðkomu barna í leikskólanum að því að móta skólanámskrána.
Í þeim leikskólum sem störfuðu samkvæmt Hjallastefnunni, átti starfsfólk að starfa
samkvæmt riti Lilju S. Sigurðardóttur og Margrétar Pálu Ólafsdóttur (2008), Hjalla-
stefnan, námskrá þeirra leikskóla sem starfa samkvæmt Hjallastefnunni. Skiptist hún
annars vegar í hugmyndafræði Hjallastefnunnar og hins vegar í starfslýsingar sem
eru útfærsla hugmyndafræðinnar. Ekki er um að ræða eiginlega skólanámskrá þar
sem tekið er mið af sérstöðu hvers leikskóla og staðháttum og starfsfólk leikskólans
hefur greiðan aðgang að og mótar, heldur er þetta sama rit notað fyrir alla leikskóla
sem starfa samkvæmt Hjallastefnunni og starfslýsingarnar einnig. Því má spyrja hvort
þær komi í stað skólanámskrár leikskólans.
Skipulag verkefna
Allir leikskólarnir voru með ákveðið dagskipulag og var hver dagur öðrum líkur að
því leyti. Fram kom í skólanámskrám þeirra skóla sem störfuðu samkvæmt Reggio
Emilia-aðferðunum að þar var unnið eftir ákveðnum þemum í tímabilum og gátu
starfsfólk og börn haft töluverð áhrif á vinnuna. Börnunum var skipt í hópa eftir aldri
og var lögð áhersla á að þau fengju að njóta sín og tjá sig á margvíslegan hátt. Börnin
völdu sér viðfangsefni í leik í valtíma. Fram kom hjá nokkrum viðmælendum í hópi
starfsfólks og foreldra að þeim þætti valið oft takmarkað í valtímunum. Leikskóla-
kennari á Kletti hafði velt valinu fyrir sér og sagði:
Ég held að eins og með valið – ég er ekkert ofsalega hlynnt þessu stífa vali. Maður
getur ímyndað sér að börnin, þegar þau vakna á morgnana þá hugsi þau: ég ætla að
leika við Jóa vin minn og ég ætla að bjóða honum með mér í eitthvað. En þetta er ekki
val lengur ef þau mega ekki velja.
Að fá að velja sama viðfangsefni og félaginn var því börnunum mikilvægt að mati for-
eldra. Í umræðum um valfundi í leikskólanum Kletti kom fram að móður eins barnsins
fannst þau ekki fá að velja það sem þau höfðu hugsað sér, „þá eru þau skylduð í
eitthvað annað heldur en þau gerðu ráð fyrir“. Hún taldi að börnin væru oft búin
að ákveða við hverja þau ætluðu að leika sér í leikskólanum, áður en þau mættu á
morgnana, og hvaða leik þau ætluðu í. Það gæti því valdið þeim miklum vonbrigðum
og jafnvel „skemmt fyrir þeim daginn“ ef þau fengju einhverra hluta vegna ekki að