Uppeldi og menntun - 01.01.2011, Page 81
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 20 (1) 2011 81
H r a fn H i l d U r r ag n a rS d Ót t i r
Málfarslegar hefðir þessara tveggja miðla eru einnig að ýmsu leyti ólíkar. T.d. þykir
lýti að endurtaka sama orðið oft í ritmáli en viðeigandi að nota sjaldgæfan og sértækan
ritmálsorðaforða, sem hins vegar kann að hljóma tilgerðarlega í talmáli.
Gera má ráð fyrir að þessar ólíku boðskiptaaðstæður og hefðir ritmáls og talmáls
hafi áhrif á orðaforðann sem textahöfundum tekst að virkja. Þeir grípi sjaldnar til
langra, flókinna og sjaldgæfra orða í talmáli en ritmáli, endurtaki í ríkara mæli sömu
orðin og pakki upplýsingum ekki jafn þétt og í ritmálstextum, en það léttir allt á
úrvinnsluálagi viðtakandans. Þetta ætti til dæmis að birtast í hærra hlutfalli kerfisorða
á kostnað inntaksorða í talmáli, en meiri notkun nafnorða og meiri fjölbreytni í orða-
vali í ritmáli. Meira sé jafnframt af löngum, beygingarlega flóknum orðum í ritmáli
en talmáli. Niðurstöður úr sænska hópnum í samanburðarrannsókninni staðfestu að
textaþéttleiki, fjölbreytileiki og meðallengd orða var meiri í ritmáli en talmáli í öllum
aldursflokkum (Johansson, 2009; Strömqvist o.fl., 2002), og Ravid og Berman (2006)
komust að sömu niðurstöðu varðandi textaþéttleika og meðallengd orða í rannsókn
sinni á enskum og hebreskum textum. Hins vegar fundu Berman og Verhoeven (2002)
ekki kerfisbundinn mun á fjölbreytileika orðaforða rit- og talmáls í samantekt sinni á
niðurstöðum samanburðar á öllum málunum sjö.
Gögnin sem safnað var fyrir þessa rannsókn henta einkar vel til að skoða kerfis-
bundið áhrif miðilsins á orðaforða vegna þess að sömu einstaklingar sömdu texta um
sama efni bæði í ritmáli og talmáli, en augljóslega styrkir það áreiðanleika mæling-
anna. Ekki er vitað um margar rannsóknir þar sem sömu höfundar semja bæði rit- og
talmálstexta um sama efni (sjá þó Scott og Windsor, 2000).
Textategundir
Frásagnir og álitsgerðir eru að flestu leyti ólíkar textategundir og gera ólíkar vits-
munalegar og málfarslegar kröfur til málnotenda (Berman og Nir-Sagiv, 2007; Hrafn-
hildur Ragnarsdóttir, 2007). Í rannsókninni sem hér um ræðir sögðu þátttakendur frá
atviki úr eigin lífi. Sjónarhorn sögumanns var því persónulegt og burðarás textans
raunverulegt fólk og atburðir sem gerst höfðu á tilteknum stað og stund og í tímaröð
sem sögumaður gat haft til halds og trausts við textagerðina.
Álitsgerðir hafa ekkert slíkt haldreipi. Inntak þeirra er tímalausar staðhæfingar,
tilgátur og alhæfingar, sem eru óháðar tilteknum persónum, stað eða stund, ásamt
rökum með og á móti ólíkum sjónarmiðum. Höfundur stillir sér upp utan textans,
sjónarhorn hans er ópersónulegt. Álitsgerðir eru þannig mun óhlutstæðara viðfangs-
efni en frásögn og gera í ríkara mæli vitsmunalegar kröfur sem eiga sér kjörtíma á
unglingsárunum eins og lýst var hér að framan. Þær kalla væntanlega einnig í ríkara
mæli á notkun óhlutstæðra orða og hugtaka, sem jafnframt hafa tilhneigingu til að
vera sértækari og sjaldgæfari en lunginn af orðaforðanum sem nýtist í frásögnum
(Chall, 2000). Ólík staða höfundar felur í sér að nafnorð (en ekki fornöfn) eru t.d. meira
notuð sem frumlag í álitsgerðum en frásögnum (Biber o.fl., 1999), en það leiðir til þess
að textinn verður merkingarlega þéttari.