Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga - 01.01.1938, Page 108
Eftir Guttorm J. Guttormsson
Þórólfur smjör í fylgd með Hrafna-Flóka
Forðum, að heimild yngri sagna bóka,
Sá það er hinn ei sá, né heldur skildi,
Sannleik á bak við tjöld og innra gildi.
Þá var það fyrst að boðskap nokkur birti:
Betur að færi, meðhald síður skyrti
Landið að héti vel, þótt vetrar sigðum
Veifði það undir jökulhjálmi skygðum.
Sagði hann vera líkt um land og manninn,
Lagði það út og færði heim um sanninn;
Mannkostir eru meira en yzta húðin,
Megin landkostir — það er innri skrúðinn.
Greini eg mikinn merg í foldarbeini,
Mælti hann þá, og líf í hverjum steini,
Vegna hins innra auðs, sem mest eg dái,
Innveitult drýpur smjör af hverju strái.
Ýmsum fanst blandað auglýsinga geipi
Orðaflóð hans, er sjóða lét á keipi
Hinsvegar ljóst að honum mundi skrumið
Henta til þess að landið yrði numið.
Þegar hann Norðmenn heimanfarar fýsti,
Fegraði og glæsti sérhvað er hann lýsti,
Þess er ei getið öld hann væri æstri
Ofan hrópaður samt með pípublæstri.
Landið þeir tóku að leiðsögn hans að byggja,
Landnám í andans heimi sér að tryggja.
Það sem þeim veitti frelsið, andans fjörið,
Frækleik og ráð með dáðum — það var smjörið.
Síðan er það að segja um þeirra arfa:
Saman til anda — jafnt og líkams þarfa
Eilífðarnóg, af alheims-víðum diski
Eta þeir smjör við lífsins harða fiski.