Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga - 01.01.1961, Side 29
DR. s. E. BJÖRNSSON:
Óður til Vestanvindsins
P. B. SHELLEY
Zephyrus frjálsi andi hausts þú ert;
þitt eðli hulið flýja blöðin smá,
er visnuð fjúka um landið litabert;
líkt eins og vofur galdramanni frá;
landplágusýktur sægur. Litafjöld
á lyng þú málar, er í jarðar ból
þú leggur vængjuð fræ, um vetrarkvöld,
á væran beð, sem lík í grafarskjól.
Unz grænklædd vordís vel þeim fagna skal,
er vekur hún af blundi kalda jörð,
og klæðir litum fjöll og fagran dal,
frjóhnappa nærir, líkt og sauðahjörð.
Þú frjálsi andi, er yfir löndin fer,
eyðandi lífs og viðhald; seg þú mér!
Við strauma þinna afl og ástarhót
óveðraskýin, líkt og visin blöð,
slitna frá himins grunni og hafsins rót;
húmvofur elds og skúra, fylking hröð,
á bláum feldi lofts á himin leið,
sem lokkasafn, er rís af fölri brá
á skapanorn, er þylur svikaseið
við sjónhring yztan hvirfilpunkti frá.
Nú kembir stormsins sterka mund sitt hár,
er strenglög dagsins blandast kveldsins hljóm;
en yfir næturhimin breiðist blár,
sem bláhvolf kirkju, er stendur auð og tóm
en fyllist brátt, er hagl á hvörmum deyr
í hljóða nótt, með daggartár. Ó heyr!