Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga - 01.01.1961, Blaðsíða 106
88
TÍMARIT ÞJÓÐRÆKNISFÉLAGS ÍSLENDINGA
haga og markvísa lýsingu á kjarnanum
í þeirri baráttu, sem Grímseyingar háðu
öldum saman, er verður um leið tákn-
mynd af baráttu hinnar íslenzku þjóðar
fyrir tilveru sinni við hin andvígustu
kjör öld eftir öld:
En haldið við sálarlífs sumri
um sólhvörfin döprust og lengst.
Þetta er hið allra aðdáunarverðasta í
sögu þjóðar vorrar, að hún lét ekki bug-
ast, hvernig sem á móti blés, hélt eigi
aðeins áfram að vera til sem þjóð, en
hélt vakandi sjálfstæðisanda sínum og
lifði andlega frjósömu menningarlífi,
misjafnlega blómlegu að vísu, þrátt fyrir
allt. Það er þetta, sem gerir sögu fá-
mennrar settþjóðar vorrar því dásam-
legri og um margt lærdómsríkari í mín-
um augum, því betur, sem ég kynni mér
þá sögu, og reyni eftir beztu getu að
lesa hana sem réttast í ljósi ferils og
reynslu annarra stærri þjóða.
f hinum fagra og tilþrifamikla kvæða-
flokki sínum, Björn á Reyðarfelli, lýsir
Jón Magnússon einyrkjanum, sem berst
sinni baráttu með frábærlegum hetju-
skap, á þessa leið:
Mér fannst hann vera ímynd þeirrar
þjóðar,
sem þúsund ára raunaferil tróð
og dauðaplágum varðist gadds og glóðar,
en geymdi alltaf lífs síns dýrsta sjóð.
— Því gat ei brostið ættarstofninn sterki,
þótt stríðir vindar græfu aldahöf,
að fólk, sem tignar trúmennskuna í
verki,
það tendrar eilíf blys á sinni gröf.
Skáldið bregður hér birtu á það grund-
vallaratriði, hvers vegna þjóð vorri tókst
að standa af sér storma aldanna og ganga
sigrandi af hólmi úr aldalangri baráttu
sinni. Það var trúnaðurinn við hið bezta
í erfðum hennar og hið göfugasta í
henni sjálfri, sem bar hana fram til sig-
urs. Þennan sannleika er oss gott að
bera í minni, enda er hjartað í allri vorri
þjóðræknisviðleitni sú sannfæring, að
varðveizla og ávöxtun hins bezta í ættar-
og menningarerfðum vorum sé bæði
mannbætandi fyrir oss sjálf og geri oss
að sama skapi vökulli og gjöfulli þegna
vors nýja lands, menningarlega talað.
Og vor íslenzka arfleifð er mörgum
þáttum ofin, gömul og ný; við hana eru
ávallt að bætast nýjar gersemar á sviði
bókmennta og lista. Ég nefni sem dæmi
nýútkomna kvæðabók Davíðs Stefáns-
sonar frá Fagraskógi, f dögun, þar sem
hvert kvæðið er öðru snjallara og feg-
urra, þrungið speki og mannkærleika.
Það tekur bæði sérstaklega til íslenzku
þjóðarinnar og talar til vor vestur-ís-
lenzkra þjóðræknismanna og kvenna
þetta erindi úr snilldarkvæðinu „Óður
til lífsins“:
Vor jörð hefur átt og alið
ættir, sem klifu fell og tind.
Því vísa þær öðrum veginn
að vizkunnar dýpstu lind.
Enn getur nútíð notið
náðar og fræðslu hjá liðinni öld.
Drauminn um vorið vekja
vetrarins stjörnukvöld.
„Enginn stöðvar tímans þunga nið,“
segir Davíð einnig í einu af sínum eldri
merkiskvæðum. Enn á ný hefir hrað-
fleygur straumur hans borið frá oss yfir
móðuna miklu stóran hóp ágætra fé-
lagssystkina vorra, er vér kveðjum með
hlýjum huga, virðingu og þökk fyrir
samfylgdina og traustan stuðning .við
málstað félags vors, en þau eru þessi
samkvæmt upplýsingum, sem fjármála-
ritari, Guðmann Levy, hefir látið mér
í té:
Dr. Þorkell Jóhannesson háskólarektor,
Reykjavík, heiðursfélagi; Ragnar Á.
Stefánsson, Winnipeg, skjalavörður fé-
lagsins; Daniel J. Lindal, Lundar; Árni
Brandson, Hnausum; Hildibrandur Hildi-
brandon, Hnausum; prófessor Sigurður
Jónsson, Chapel Hill, North Carolina;
Guðmundur A. Stefánsson, Winnipeg;
Miss Elín Hall, Winnipeg; Mrs. J. B.
Skaptason, Winnipeg; Hjálmar Gíslason,
Winnipeg; Miss Friðmunda Christie,
Winnipeg; Mrs. Ingibjörg Butler, Winni-
peg; Thorvaldur Pétursson, Toronto;
Guðmundur B. Magnússon, Gimli; Mrs.
John Stevens, Gimli; Hjörtur T. Hjalta-
lín, Mountain, oftsinnis forseti deildar-
innar ,,Báran“; John H. Johnson, Moun-
tain; Steini Goodman, Milton; Mrs. Sig-
urbjörg Johnson, Selkirk; Mrs. Ásta
Sveinsson, Selkirk, og Mrs. Thora Aust-
mann, Gimli.
Um leið og vér vottum aðstandendum
þessara_ horfnu félagssystkina úr hópn-
um djúpa hluttekningu vora, skulum
vér minnast þeirra með því að rísa úr
sætum.
En lífið heldur áfram, og oss, sem uppi
stöndum, ber að halda merkinu á lofti
eftir mætti, þótt á brattann sé að sækja.
Það hefir stjórnarnefnd félagsins leit-
azt við að gera á liðnu starfsári. Á all-
mörgum fundum, og utan þeirra, hefir
hún fjallað um þau mál, sem síðasta
þjóðræknisþing fól henni í hendur, og
jafnframt haft til umræðu og fram-
kvæmda ýmis önnur málefni. Samnefnd-
arfólki mínu þakka ég nú sem áður
ágæta samvinnu. Rennum því næst sjón-
um yfir starfsárið.