Uppeldi og menntun - 01.01.2012, Blaðsíða 103
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 21(1) 2012 103
gUðrún v. stefánsdóttir
landi gerir ráð fyrir að fatlað fólk eigi rétt á fullri þátttöku á öllum sviðum samfélags-
ins. Þroskaþjálfar hafa sem starfsstétt aðlagað sig þessum breyttu aðstæðum og að
flestra mati tekist það vel. Eins og áður segir voru lög um þroskaþjálfa samþykkt árið
1978 en þau lög eru ennþá í gildi. Auk þess var sett reglugerð um störf og starfsvett-
vang þroskaþjálfa árið 1987. Lögin og reglugerðin eru börn síns tíma og urðu til þegar
þroskaþjálfar störfuðu á Kópavogshæli eða í öðrum sértækum úrræðum fyrir fatlað
fólk. Þau bera þess einnig merki að á þeim tíma var forræðishyggja gagnvart fötluðu
fólki ríkjandi og læknar og sérfræðingar taldir best til þess hæfir að meta hvað væri
fötluðu fólki fyrir bestu. Löngu er því tímabært að endurskoða lögin og reglugerðina
og eru þroskaþjálfar meðvitaðir um það eins og starfskenning þeirra ber merki. Þar er
m.a. talað um að þroskaþjálfar séu fagstétt sem starfar með fólki á öllum aldri sem býr
við skerðingar og að störf þeirra byggist á jafnrétti, virðingu fyrir sjálfsákvörðunar-
rétti og mannhelgi (Þroskaþjálfafélag Íslands, e.d.). Starfskenningin er því í takti við
ríkjandi áherslur í málaflokkum fatlaðs fólks sem byggjast á mannréttindasjónarmiðum
og kröfunni um fulla þátttöku í samfélaginu.
Eins og áður segir kalla ný viðhorf og breyttar hugmyndafræðilegar áherslur í
málaflokkum fatlaðs fólks einnig á ígrundun um menntun þroskaþjálfa. Þróun í námi
þroskaþjálfa hefur frá upphafi verið nátengd stefnu og hugmyndafræði á vettvangi
fatlaðs fólks. Þroskaþjálfanámið í dag endurspeglar vel hugmyndafræði mannrétt-
indasjónarmiða og sjálfstæðs lífs en þar er ítrekað að hlutverk fagstétta á borð við
þroskaþjálfa sé fyrst og fremst að ryðja hindrunum úr vegi fatlaðs fólks og veita
því aðstoð í þeim tilgangi að stuðla að fullri þátttöku fatlaðs fólks á öllum sviðum
samfélagsins. Enn fremur er litið svo á að hlutverk þroskaþjálfa felist ekki síst í rétt-
indagæslu með fötluðu fólki. Hugtakanotkun á þessum vettvangi og í þroskaþjálfa-
náminu endurspeglar þessa þróun vel. Hugtök á borð við stuðning og persónulega
aðstoð, réttindagæslu og mannréttindanálgun hafa komið í stað hugtaka sem áður
voru ríkjandi, eins og uppeldi, þjálfun, gæsla og umönnun. Nú þykir heldur ekki við
hæfi að tala um fatlað fólk sem skjólstæðinga enda er það í æ ríkari mæli vinnuveit-
endur þroskaþjálfa og annarra fagstétta. Í takt við breytt hlutverk þroskaþjálfa má
einnig varpa fram þeirri spurningu hvort starfsheitið þroskaþjálfi sé ekki barn síns
tíma og þurfi endurskoðunar við.
Þó að nám þroskaþjálfa hafi tekið miklum breytingum er enn tekist á um ýmsa
áhersluþætti í náminu, bæði innan Háskóla Íslands og meðal þroskaþjálfa. Bent hefur
verið á að enn byggist hluti námsins á klínískum greinum eins og sálfræði og læknis-
fræði. Á hinn bóginn hefur komið fram sú gagnrýni að of mikil áhersla sé á fötlunar-
fræði, félagslegan skilning og mannréttindanálgun á kostnað þjálfunarleiða og með-
ferðarforma. Ætla má að ávallt verði einhver skörun á milli þessara þátta í námi og
starfi þroskaþjálfa en aftur á móti getur reynst erfitt að finna rétt vægi. Ljóst er að
mörg úrlausnarefni eru framundan, en tilgangur greinanna sem hér fara á eftir er að
varpa ljósi á þau sem efst eru á baugi.