Hugur - 01.01.2008, Síða 34
32
Páll Skúlason
Berkeley, Hume, Malebranche og Husserl sem allir skýra heiminn eða réttara sagt
reynslu okkar af heiminum út frá einhverju öðru en heiminum sjálfum, einhverju
sem ekki er sjálft heimur, heldur uppspretta merkingar þess sem við uppgötvum í
reynslunni og sem gerir þannig veruleikann skiljanlegan fyrir okkur, að minnsta
kosti að vissu marki, það er að segja að svo miklu leyti sem það er á valdi manns-
andans að skilja heiminn. Heimspekingar nýaldar, sem Alquié nefnir, eiga það allir
sammerkt að undrast það að í náttúrunni og reynslu okkar skulum við sífellt rekast
á sömu, stöðugu tengslin á milli hlutanna, tengsl sem virðast óhjákvæmileg og
algild, án þess að við vitum hvers vegna. Verkefni heimspekinga verður að reyna
að draga hina skiljanlegu ástæðu fram í dagsljósið. Og Alquié nefnir sem dæmi
hvernig Hume skýrir lögmál heimsins með vísun í vana þeirrar sálrænu hkamsveru
sem hvert okkar er og hvernig Kant skýrir sömu lögmál með skírskotun í frum-
hugtök og fyrirfram sanna reynsludóma.
En Alquié lætur ekki dæmin duga, heldur bendir á tvennt varðandi aðferð
heimspekinnar sem hann telur heimspekingum sameiginlegt. Það er í fyrsta lagi
að heimspekin bregst ævinlega við þekkingu sem ekki er heimspekileg, skoðunum
og hugmyndum sem heimspekingurinn uppgötvar sem ófullnægjandi ef ekki
beinlínis villandi; og hann gerist væntanlega heimspekingur einmitt vegna þess að
hann sættir sig ekki við þetta ástand okkar að halda að við vitum og skiljum það
sem við hvorki vitum né skiljum. í öðru lagi skiptir andleg saga heimspekings
sjálfs höfuðmáli, það er að segja hvernig hann gerir sína persónulegu uppgötvun
á því hvað miður fer í reynsluþekkingu okkar og hvernig hann mótar á sinn
persónulega hátt hugmyndirnar til að gera heiminn og reynslu okkar skiljanleg.
Alquié orðar það svo að heimspekingurinn „hefji eigin sögu upp á stall eðlisins“,
það er hann lætur sína eigin andlegu sögu vera dæmigerða fyrir það hvernig á að
skilja heiminn fyrir hvern sem vera skal. Þess vegna segir Descartes um fyrstu
hugleiðingu sína að það þurfi vikur og mánuði til að skilja hana, en að dómi
Alquié væri það fáránlegt, ef fyrstu hugleiðinguna mætti smætta niður í þau
fræðilegu sannindi sem hún inniheldur, því að til þess að skilja þau þurfi tæplega
meira en hálftíma!10
Þótt aðferð heimspekinganna sé í megindráttum sú sama þá mótar hver hana á
sinn persónulega hátt. En lykilatriðið er að markmiðið sem heimspekingarnir
stefna að er hið sama, en það er að sýna að heimurinn feli ekki í sér sín eigin
skilyrði. Að dómi Alquié hættir okkur til að gerast sek um eina meginvillu sem
felur í sér allar aðrar sem okkur verður á þegar heimspeki á í hlut, en það er að
halda að heimspekingarnir veiti okkur aðgang að öðrum heimi. Þessi villa verður
þegar við lítum svo á að heimspekin miðli hlutlægum sannindum í heimspekilegu
kerfi. Kerfið kemur til sögunnar, segir Alquié, þegar heimspekingurinn er búinn
að yfirgefa þennan heim, gefst upp á því að reyna að botna í honum, og vill sýna
okkur í staðinn annan heim og sannari sem er í samræmi við kerfið sem hann
hefur smíðað með hugtökum sínum. Væntanlega hefur Alquié hér einkum í huga
Hegel, þótt hann segi það ekki, og þá sérstaklega þá staðreynd að heimspeki hans
io Sbr. sama rit, s. 85.