Hugur - 01.01.2008, Qupperneq 164
162
Hjörleifur Finnsson og Davíö Kristinsson
En sú mynd sem þar er dregin upp af æviferli, verkum og persónu Alt-
hussers og hlutverki konunnar í lífi hans virðist hins vegar nokkuð nálægt
sannleikanum. [...] Dómur eftirtímans virðist nú vera sá, að það [framlag
hans á sviði heimspekinnar] sé harla takmarkað, hugmyndir sínar hafi
hann sótt í smiðju til annarra, eins og hann er látinn segja í leikritinu (og
sjálfsævisagan styður það), og útfært þær einstrengingslega með alls kyns
málskrúði, sem kastaði ryk í augu stúdenta. Maður hefúr þá óþægilegu
tilfinningu að þetta hafi allt verið blekkingavefúr. (107)
Þótt Althusser kunni að hafa verið fúll hógvær í sjálfsævisögu sinni er varla sann-
gjarnt að auðkenna marxistann þannig að hann hafi sótt hugmyndir sínar til
annarra hugsuða. Vera kann að Einari Má takist á þennan hátt að sannfæra þá
sem lítið þekkja til Althussers um að hann hafi verið ófrumlegur ritþjófúr. Þeir
sem einhverja innsýn hafa í fræðin vita hins vegar að frumkvöðlarnir eru fáir og
meta af þeim sökum ekki heimspekinga út frá því hvort þeir hafi sótt í smiðju
til annarra heldur því hvað þeir reistu sjálfir úr kubbunum sem þeir fengu lánaða
hjá öðrum.s° Althusser var undir áhrifúm franskra vísindaheimspekinga á borð
við lærimeistara hans Gaston Bachelard sem Einar Már nefnir ekki. Frumleiki
Althussers fólst ekki í því að skapa heiminn úr engu heldur m.a. í því að styðjast
í rannsókn sinni á verkferli Marx við hugtök (t.d. „þekkingarfræðilegt rof‘) sem
Bachelard hafði þróað með hliðsjón af sögu raunvísindanna.
Einar Már gefur í skyn að heimspeki Althussers hafi verið svo loftkennd að
blekkja þurfti nemendurna til þess að þeir yrðu þess ekki varir: „I blaðadómum
um leikritið sagði, að fyrrverandi nemendur hans skömmuðust sín nú fyrir að hafa
látið blekkjast." „Eftir Althusser liggur nú fátt bitastætt nema þessi sjálfsævisaga“
(107), skrifar Einar Már og maður spyr sig hvort hann byggi dóm sinn á lestri
verka heimspekingsins, sem hann nefnir varla einu orði, eða hvort sjálfsævisagan
sé eina ritið sem hann telur sig þurfa að blaða í til að geta síðan leitt íslenska
lesendur í allan sannleika um heimspeki Althussers. Tískugreining Einars Más,
sem gengur út frá því að fræðimenn komist upp með hvaða þvælu sem er, van-
metur alfarið það aðhald sem er ríkjandi innan háskólasamfélagsins. Ein af mörg-
um óskrifuðum reglum sem ríkja þar á bæ er á þá leið að heimspekirit verða ekki
metin út frá leikhúsdómum.
Samkvæmt Einari Má þykist Foucault, eins og Althusser, vera að gera eitthvað
nýtt þótt það sé ekki raunin: „hann nefnir ekki þá sem kalla mætti forvera hans í
sagnfræði en reynir að láta líta svo út að rannsókn hans sjálfs sé ný og af allt öðru
tagi“ (118). Nú hafði Foucault lítið álit á söguspeki heimspekinga en þeim mun
meira álit á heimspekilegri vísindasögu hugsuða á borð við Bachelard og George
Canguilhem. Þar að auki bar Foucault, rétt eins og Einar Már, mikla virðingu fyrir
Annálaskólanum í sagnfræði. Þegar Foucault sendi frá sér Sögu geðveikinnar á
50 Um Einar Má skrifar Stefán Snævarr („Sæmi fróði skrifar bréP): „Hann heldur Sartre mjög
á lofti en láist að geta þess að Veran og neindin er undir vægast sagt sterkum áhrifum frá
Heidegger, sumt næstum stolið." En tilvistarstefnan virðist vera í of miklu uppáhaldi hjá
Einari Má til þess að áhyggjur hans af meintum stuldi Foucaults og Althussers kvikni í tilviki
Sartres.