Árbók VFÍ/TFÍ - 01.06.2010, Page 273
Hönnun
Nálægð byggingarinnar við Reykjavíkurflugvöll þurfti að skoða
sérstaklega m.t.t. hávaða frá flugumferð og var uppbygging hús-
hliða skoðuð sérstaklega í því ljósi. Kennslustofur og önnur rými
aðlæg innigötunni Jörð þurfti að hjóðeinangra sérstaklega vegna
þess hávaða sem skapast af mikilli umferð um ganginn. Mikið er
um glerveggi á ganginum og var því valið að hafa þykkt tvöfalt
gler þar sem ástæða þótti til. Sömuleiðis var ákveðið að leggja
svokölluð „fljótandi gólf", þ.e. upplyft gólf með hljóðdeyfandi
undirlagi, þar sem gangar liggja beint yfir skólastofum sem og í
rými yfir fyrirlestrarsal. Steyptir veggir voru klæddir með steinull
og gipsplötum þar sem búast má við miklum hávaða, s.s. í
tilraunastofum og hljóðupptökuherbergi. Við val á tækjabúnaði
og staðsetningu hans, einangrun og frágangi lagna var sérstaklega
hugað að því að hávaði frá þessum einingum væri sem minnstur
og þá sérstaklega í kennslurýmum. Eru þetta aðeins nokkur dæmi
um þær aðgerðir sem framkvæmdar voru umfram það sem skylt
er til að tryggja að útbreiðsla hávaða væri eins lítil og kostur er.
Ekki verður fjallað frekar um hljóðeinangrun eða hljóðstig frá
tækjabúnaði sérstaklega í þessari grein heldur verður frekar lögð
áhersla á einstök rými og hljóðvistarhönnun þeirra.
Við hljóðvistarhönnun einstakra rýma var í flestum tilvikum
einkum horft til þess að ómtími væri hóflegur og að lágmarka
hávaða. í kennslurýmum var auk þess lögð sérstök áhersla á það
að skiljanleiki talaðs máls væri góður.
Ómtími er í stuttu máli sá tími sem tekur hljóð að deyja út í tilteknu rými. Ómtími er í
réttu hlutfalli við rúmmál rýmis og ómar hljóð að öllu jöfnu lengur í stórum opnum
rýmum en minni. Til þess að lækka ómtíma þarf að koma hljóðdeyfandi yfirborðum að
inni í rýminu. Slík yfirborð geta verið allavega en að öllu jöfnu þurfa þau að vera á ein-
hvern hátt mjúk eða drjúp, hörð yfirborð s.s. steinn eða gler gera lítið til að deyfa hljóð.
Of langur ómtími lýsir sér sem bergmál eða glymjandi, verður til þess að hljóð renna
saman, minnka talskilning og magna upp hávaða. I slíkum rýmum er ekki gott að vera
og má segja að þau séu óhæf til kennslu. Mjög mikilvægt er því að ómtími sé ekki of
langur. Ekki er heldur gott ef ómtími er of stuttur. Slíkum rýmum má lýsa sem þurrum
eða dauðum. En hversu langur á ómtíminn þá að vera? Mislangur ómur hentar mis-
munandi starfsemi. Þar sem talað mál þarf að skiljast er betra að hafa styttri ómtíma. Þar
sem njóta á tónlistar er lengri ómtími æskilegur. Þar sem mikilvægt er að hljóð berist út
er betra að hafa lengri óm. Þar sem þú vilt geta verið í næði er betra að hafa styttri óm.
Einnig þarf að líta til þess hvað við skynjum sem eðlilegt. Stór rými óma meira en lítil að
öllu jöfriu og er það okkur eðlislægt að búast við því. Það væri því að einhverju leyti
skrítin, jafnvel röng, upplifun að koma úr litlu ómmiklu rými yfir í stórt rými sem ómaði
minna. Það kann að hljóma eins og þetta séu atriði sem venjulegir notendur myndu ekki
taka eftir en svo er ekki. Hljóðvist er einmitt eitt það fyrsta sem fólk tekur eftir, þ.e. ef hún
er ekki í lagi. Fólki líður almennt illa í rýmum þar sem glymjandi er mikill og bergmál og
hávaði valda því að talað mál heyrist eða skilst ekki. Upplifunin kemur fram um leið og
gengið er inn í rýmið svo að eftir er tekið. Góðri hljóðvist er hinsvegar yfirleitt ekki tekið
eftir. Rýmið er þægilegt, bara eins og það á að vera.
Eitt af mikilvægum markmiðum hljóðvistarhönnuða var að sjá til þess að hljóðvist bygg-
inganna væri lítt áberandi og félli vel að útliti byggingarinnar. í samvinnu við arkitekta
var unnið að því að finna lausnir sem uppfylltu tæknilegar þarfir um leið og þær féllu vel
að annarri hönnun byggingarinnar.
r ^ ^
Mynd 2. Mjúk, titrings-
deyfandi undirlög undir
þrep stálstiga á gangveg-
inum Jörð og miðsvæðinu
Sól er dæmi um aðgerðir
ætlaðar til að draga úr
hávaða.
Tækni- og vísindagreinar
2 7 1