Tímarit Máls og menningar - 01.07.1946, Síða 14
HALLDÓR KILJAN LAXNESS :
ÍSLAND
og samsærið gegn heimsfriðnum
Nú virðist vera svo lángt um liðið, mér finst einsog ég hafi lesið
um það í sögubók, og þó eru enn ekki heil tvö ár síðan það gerðist,
að allir Íslendíngar voru eitt, einn flokkur, einn hugur, eitt hjarta,
háir sem lágir, sæll og fátækur, allir gagnteknir sama barnslega
fögnuðinum og stoltinu, kristnir sem ókristnir meðal vor uppfyltir
sama þakklætinu til alvaldsins. Það var í hitteðfyrra sautjánda
júní, daginn sem við lýstum yfir stofnun íslenzks lýðveldis á Alþíngi
að Þíngvöllum við Oxará.
Þessi lýðveldisyfirlýsíng gerðist án þess við hefðum með henni
traðkað rétti nokkurrar annarrar þjóðar, eða nokkurs manns, það-
anafsíður að hún hefði kostað dropa af heiftarblóði, löglegt niður-
fall samníngs við annað ríki og staða heimstaflsins hjálpuðust til að
gera okkur rétt þenna sjálfsagðan; og við hlið okkar á hinum helga
stað sögu vorrar stóðu fulltrúar höfuðríkja heimsins og fluttu okkur
árnaðaróskir þjóða sinna og hátíðlegar vinsemdaryfirlýsíngar rík-
isstjórna sinna, yfirlýsíngar sem innibundu heit þeirra um að virða
rétt okkar bæði til að heita og vera sjálfstætt íslenskt lýðveldi.
Það er gott að hafa feingið að lifa þessa daga, sem virðast nú svo
lángt undan en eru þó svo nær, feingið að lifa óskastund þjóðar
sinnar, sjá draum aldanna rætast í landi sínu, finna að maður til-
heyrði þjóð sem þekti sinn vitjunartíma: stóð saman sem einn mað-
ur um framkvæmd sinnar hjartfólgnustu óskar á stund sem frá öll-
um sjónarmiðum var rétt.
Endurminníng þessara fagnaðarríku júnídaga 1944 fylgir okkur
meðan við lifum. Það var merkilegt hvernig sérhverjum þjóðarein-
staklíngi fanst þessa daga að þjóðarævin væri líf hans sjálfs, það var
einsog sérhver maður, fróður sem ófróður, fyndi sögu landsins lifa