Tímarit Máls og menningar - 01.07.1946, Blaðsíða 37
BJORN FRANZSON:
LÝÐRÆÐI
Þróun lýðræðisins
Lýðræði er þjóðfélagsfyrirbæri, sem á sér langa þróunarsögu.
Því fer fjarri, að lýðræðið hafi alla tíð verið slíkt sem það er á vor-
um tímum, og alveg eins fjarstætt er hitt, að lýðræði það, sem nú
er efst á baugi, muni verða í gildi héðan af um aldur og ævi. Eins
og önnur fyrirbæri þjóðfélagsins hefur lýðræðið þróazt áleiðis frá
hinum frumstæðustu myndunum til fullkomnari forma, og enginn
kraftur fær komið í veg fyrir það, að þeirri þróun haldi áfram.
íslenzka orðið lýðræði er útlegging á orðinu „demokrati“, sem er
komið úr grísku og var þar liaft um það stjórnarform, er tíðkaðist í
hellensku borgríkjunum í fornöld. Samkvæmt því stjórnarformi
skyldu allir frjálsir karlmenn hafa rétt til að taka þátt í almennum
borgarafundum, þar sem málefni ríkisins voru til úrlausnar. Hér
var að ræða um lýðræði, þar sem langmestur hluti lýðsins var raun-
ar utan garðs, ekki aðeins kvenþjóðin, heldur og þrælastéttin, fjöl-
mennari miklu oft og tíðum en hinir frjálsu borgarar og svipt öllum
persónulegum og pólitískum réttindum.
Með Germönum hinum fornu tíðkaðist svipað fyrirkomulag, er
þeir réðu málum til lykta á þingum sínum. Nærtækt dæmi þar um
er stjórnarfar íslendinga á söguöld, sem sumir hafa viljað nefna
lýðræði, þó að það nafn sé eigi minna öfugmæli um hið fornís-
lenzka stjórnarfar en hið forngríska. A íslandi var ekki einungis
um það að ræða, að kvenþjóðin og þrælastéttin væri svipt pólitísk-
um réttindum, heldur og þá staðreynd, að öll stjórnmálavöld voru
í raun og veru í höndum stórbændastéttar, sem var mjög lítill hluti
af flokki frjálsra manna í landinu.
Með endalokum hins forna þjóðskipulags glatast sá ófullkonmi
vísir til lýðræðis, sem þróazt hafði í skauti þess. Lýðræði var aðals-
veldi og einvaldsskipulagi miðaldanna framandi hugtak. En þegar