Tímarit Máls og menningar - 01.05.1982, Blaðsíða 33
Fegursta sjórekið lík
brattan klettavegginn fundu þau í fyrsta sinn hve götur þeirra voru
eyðilegar, garðar þeirra gróðurlausir og draumar þeirra fátæklegir,
andspænis glæsileik og fegurð sjórekna líksins þeirra. Þau slepptu
honum akkerislausum til þess að hann gæti komið aftur ef hann vildi
og þegar hann vildi, og allir héldu niðri í sér andanum það eilífðar-
brot sem líkið var á leiðinni niður í hyldýpið. Þau þurftu ekki að líta
hvert á annað til að sannfærast um að komið var skarð í hópinn, sem
aldrei yrði bætt. En þau vissu líka, að upp frá þessu yrði allt með
öðrum hætti, að hús þeirra fengju breiðari dyr, hærri þök og sléttari
gólf, til þess að minningin um Stefán gæti gengið um allt óhindruð
og án þess að reka sig uppundir, og enginn þyrði framar að hvísla
stóra fíflið er dáið, en leitt að fallegi bjáninn skyldi deyja, og þau
ætluðu að mála framhliðar húsanna glöðum litum til að minningin
um Stefán yrði eilíf, og þau ætluðu að vinna baki brotnu, grafa upp
lindir í urðinni og sá blómum í klettana til þess að farþegar stóru
skipanna vöknuðu framvegis í dögun við kæfandi blómailm á hafi
úti og skipstjórinn yrði að koma niður úr brúnni klæddur
viðhafnarbúningi sínum, með stjörnualmanakið, pólstjörnuna og
runu af stríðsmedalíum, og benda á rósabinginn úti við ystu mörk
Karíbahafsins og segja á fjórtán tungumálum sjáið þarna, þar sem
vindurinn hefur nú svo hægt um sig að hann sofnar undir rúmunum,
þar sem sólin skín svo glatt að sólblómin vita ekki hvert þau eiga að
snúa sér, já einmitt þar er þorpið hans Stefáns.
Ingibjörg Haraldsdóttir þýddi.
151