Tímarit Máls og menningar - 01.05.1982, Page 85
Silja Aðalsteinsdóttir
Breytileiki lífsins er sannleikurinn
(Eða: Hörð árás á Arna Sigurjónsson)
Aldrei gleymi ég því þegar ég lauk við lestur Sölku Völku eftir Halldór
Laxness í fyrsta sinn. Það var snemma kvölds um hávetur og ég hafði lesið
síðustu kaflana upphátt, því hún var húslestrarbók fjölskyldunnar þær
vikurnar. Raunar átti ég í miklum erfiðleikum með lesturinn vegna
óstöðvandi táraflóðs á síðustu blaðsíðunum. En þegar lestri lauk var barið
að dyrum. Frammi stóð konan á neðri hæðinni og bað um að fá léðan
sykur. Henni varð mikið um þegar hún sá mig svona útgrátna og sagðist
ekki vilja trufla, en ég sagði á móti að þetta væri allt í lagi, ég hefði bara
verið að lesa svona sorglega bók. Hún trúði mér greinilega ekki, en
sykurinn fékk hún.
Alveg síðan þennan vetur hef ég haldið meira upp á Sölku Völku en
aðrar bækur. Hún er svo rík saga af mannlífi og heimspekilegum vangavelt-
um um lífið á þessu landi, að stundum þegar ég les hana finnst mér að ef ég
gæti bara lesið hana hægt og rólega myndi mér opinberast allur sannleikur-
inn um þjóð mína. Hins vegar er hún svo spennandi að það er engin leið að
lesa hana hægt.
í síðasta hefti þessa tímarits (TMM 1 1982) birtist grein sem mér þótti
forvitnileg fyrir margra hluta sakir en einkum þó fyrir það hvernig
höfundur hennar metur aðalpersónur verksins um Sölku Völku. Greinin
ber heitið Hugmyndafrœði Alþýðubókarinnar og er eftir Arna Sigurjóns-
son. Árni er einkum að gera grein fyrir skoðunum Halldórs á árunum
kringum 1930 eins og þær koma fram í Alþýðubókinni og Sölku Völku, og
þeim margvíslegu áhrifum sem hann varð fyrir þá. Fræðimennska Árna er
traust eftir því sem ég best fæ séð og hef vit á, en bókmenntalegt mat hans
þykir mér ekki eins traust. Þess vegna langar mig að sletta mér ofurlítið
fram í umræðu hans um Sölku Völku; Alþýðubókina læt ég liggja milli
hluta að mestu.
I þessari stuttu umsögn gefst ekki rúm til að rekja efni Sölku Völku og
kýs ég því þann auðvelda útveg að gera ráð fyrir að lesendur hafi lesið hana
líka. Allar tilvitnanir í bókina eru í 3. útgáfu hennar (Helgafell, 1959).
203