Tímarit Máls og menningar - 01.05.1982, Side 94
Tímarit Máls og menningar
öllu börn, þá steig hún uppá stól, þeytti upp glugganum og kallaði
til hans að fara varlaga, hann gæti dottið, rennan gæti gefið sig, hann
gæti fótbrotnað, hann yrði að bíða svona grafkjur, alveg grafkjur
þangað til maðurinn hennar kæmi með stiga, alveg grafkjur. Hún
hvarf úr glugganum og drengurinn rifjaði það upp fyrir sér sem
hann hafði heyrt mömmu sína segja, að kona rafveitustjórans ætti
erfitt, hún væri ýmist svo veik að hún færi ekki úr náttsloppnum
dögum saman, eða svo skelfing frísk að hún þurrkaði af frammá
nætur; krakkana sína dúðaði hún líka einsog hún væri hrædd um að
þau dæju ef þau fengju kvef oní þetta síkvef sem þau voru með ein
allra barna.
Hann færði sig úteftir þakinu og fann að rennan var ekki sú
sterkasta í bænum, hún gaf frá sér brakandi veikleikastunur um leið
og hún geiflaði sig hér og þar og sýndi hvar riðið var komið í gegn.
Af lítilli varúð beygði hann sig fram og tók upp undrið sem svo
lengi hafði freistað hans úr glugganum. Það reyndist vera lykill af
sardínudós, og drengurinn hnussaði í vonbrigðum sínum og kastaði
honum niðrí garðinn um leið og konan og rafveitustjórinn komu
frammá tröppurnar.
— Gerðu eitthvað, Sigurður! hrópaði hún þegar maður hennar
lét sér nægja að standa þarna og virða fyrir sér drenginn á þakinu.
Hvað er þetta, ætlarðu þá ekki að sækja stiga?
— Ætlar þú aldrei að hætta að verða þér til skammar? sagði hann
og snaraðist inn.
— Sigurður! kallaði hún á eftir honum og gat ekki haft augun af
drengnum. Sigurður, Sigurður!
En Sigurður rafveitustjóri ansaði þessu engu.
— Vertu kjur, vertu kjur, hrópaði hún þá til drengsins. Eg
skal . . .
Hún náði ekki að segja meira né að hreyfa sig úr stað, því nú tók
drengurinn af öll tvímæli um andlega vanheilsu sína, hann gekk
hægum og öruggum skrefum eftir þakrennunni og horfði um leið
yfir nágrennið, nálægt og fjarlægt, einsog hann væri að leika ferða-
mann í útsýnisturni. Þetta var meira en kona rafveitustjórans þoldi.
Hún tók með báðum höndum fyrir augun og kallaði svo hátt að það
heyrðist í nærliggjandi húsum: — Hjálp, Sigurður, hjálp!
Þá gerðist þrennt í einu: foreldrar drengsins komu út, rafveitu-
212