Tímarit Máls og menningar - 01.05.1982, Side 96
Tímarit Máls og menningar
og bækur einsog þetta væri lesstofa, tvö teppi voru í kuðli í slitnum
sóffanum einsog einhver hefði lagt sig þarna til svefns eða hvíldar,
og mikið ef kötturinn hafði ekki gert eitthvað, undarleg var lyktin.
— Hér gildir einu-sinni-í-viku-reglan, sagði móðir drengsins og
hló afsakandi um leið og hún fór frammí eldhús að setja á ketilinn.
Kona rafveitustjórans kom á eftir henni, leit á hana með hlut-
tekningu og mælti: — Nú skil ég. — Svo skundaði hún út án þess að
kveðja.
Stuttu seinna mætti hún drengnum þar sem hann var að leika sér á
götunni ásamt öðrum krökkum. Hún stóð álengdar nokkra stund
og virti hann fyrir sér. Þá gekk hún til hans, horfði beint í augu hans
og sagði upphöfðum rómi: — Þú ert brjálaður, blessað barn. Guð
veri með þér.
Þetta heyrðu krakkarnir, og í nokkra daga loddi við hann
auknefnið brjálaði. Hann undi því illa og hugsaði með sér, að hún
skyldi þá fá að sjá hvað hann var snarbrjálaður. Eitt sinn þegar hann
hafði setið lengi við kvistgluggann og beðið eftir því að hún kæmi
auga á hann, smeygði hann sér heldur óvarlega útá þakið. Hún
kallaði til hans og hótaði að hringja á lögregluna. Hann blístraði og
gerði kúnstir á þakinu, og hún hvarf og kom aftur og sagði að
lögreglan væri á leiðinni. Það þótti þeim brjálaða gaman og gerði
fleiri og erfiðari kúnstir. En lögreglan kom ekki. Afturámóti kallaði
kona rafveitustjórans á börnin sín að koma inn, og með þeirra
aðstoð byrgði hún fyrir gluggana á framhlið hússins með hvítum
lökum. Þá var gamanið ekki lengur gaman og drengurinn hoppaði
niðrá blettinn.
Lökin voru rifin niður þegar rafveitustjórinn kom heim úr
vinnunni. En þegar hann fór að heiman morguninn eftir setti konan
hans þau fyrir aftur. A þessu gekk í rúma viku eða þartil skólinn var
á enda í þetta sinn og drengurinn sendur í sveitina.
Um haustið voru foreldrar hans fluttir til Reykjavíkur og kona
rafveitustjórans hvarf inní endurminninguna til að dofna þar með
árunum sem brátt liðu nú í snöggum kippum þess á milli sem þau
liðu alls ekki og voru einhliða og jafnvel fátækleg í samanburði við
árin á undan þegar líkaminn og sálin voru ennþá eitt.
Svo var drengurinn ekki lengur drengur, hann var tvítugur stú-
dent og ætlaði til útlanda um haustið, hann langaði til að læra
214