Tímarit Máls og menningar - 01.06.1984, Page 18
Tímarit Máls og menningar
heimsins. Aðalsfólki sem miljónir vélrænna þræla fæddu og klæddu.
Óbundna, frjálsa og fullkomna menn.
Sekt mannsins er á dagskrá í þessum orðum forstjóra Rossumverksmiðj-
anna. Aform Velgjörðarmannsins í „Við“ minna bæði á hugsanagang Eftir-
litsmannsins í „Fögru nýju veröld“ sem áður var vitnað til og svo það, að
hugmyndir um fullsælu eru frá fornu tengdar við Paradísardrauminn — sem
Zamjatín hafnar á sinn hátt. Uppreisnarmennirnir í sögu hans kalla sig
reyndar MEFI, þeir eru arftakar Mefistó, hins gagnrýna anda, Satans, hins
uppreisnargjarna engils sem storkar valdi himnaföður. Velgjörðarmaðurinn
ávítar D-503 einmitt fyrir það að hafa slegist í för með þeim sem koma í veg
fyrir Paradísarheimt:12)
Mér er spurn: um hvað létu menn sig dreyma, um hvað báðu þeir frá því
þeir voru kornabörn, út af hverju þjáðust þeir? Þeir vildu að einhver segði
þeim í eitt skipti fyrir öll hvað hamingja sé og hlekkjaði þá síðan við þessa
hamingju. Og hvað erum við að gera núna ef ekki einmitt þetta? Hinn forni
draumur um Paradís . . . Þér skulið rifja hann upp — í himnaríki þekkja menn
ekki óskir, ekki meðaumkun, ekki ást, þar eru hinir sælu, sem ímyndunaraflið
hefur verið tekið úr (vegna þess eins eru þeir sælir) — englar eru þeir, guðs
þrælar.
Hér heyrist, vel á minnst, bergmál af ræðu Rannsóknardómarans mikla í
sögu Dostoévskís, „Bræðurnir Karamazof". Hann segir við Krist endur-
kominn, að hann verði að krossfesta hann aftur, því hann trufli það verk
kirkjuhöfðingja að losa fólkið undan byrði frelsisins. En þótt Zamjatín
nálgist þessi mál bersýnilega frá öðru sjónarhorni en hinn mikli landi hans,
má finna í nefndum verkum þeirra vissar hliðstæður: valdhroki Rann-
sóknardómarans er kristindómur andskotans, Velgjörðarmaðurinn fer með
formúlu fyrir því, sem kalla mætti sósíalisma djöfulsins.
Allt annað er uppi á teningnum þegar einn helsti liðsforingi Stóra Bróður
í „1984“, O’Brien, útskýrir hinstu rök valdsins í Oceaníu. Hann vísar með
fyrirlitningu á bug þeirri tilgátu, að Flokkurinn taki sér allt vald til þess að
undirbúa hamingju fyrir fólkið eins og rússneskir kommúnistar sögðust
vera að gera. Við erum þeir fyrstu sem vitum hvað við erum að gera, segir
hann:13>
Vald er ekki tæki, vald er markmið. Það er ekki komið á alræði til að
tryggja árangur byltingar, bylting er gerð til þess að koma á alræði. Tilgangur
ofsókna er ofsóknir. Tilgangur pyntinga er pyntingar. Tilgangur valdsins er
vald.
248