Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2006, Síða 40
35
Tímarit um menntarannsóknir, 3. árgangur 2006
Þessi áhrif fræðslunnar mátti enn sjá sjö vikum
eftir að henni lauk. Ekki reyndist mögulegt að
athuga langtíma áhrif í rannsókn okkar þar sem
svo fáir þátttakendur svöruðu spurningalistunum
í þriðju fyrirlögn tíu vikum eftir lok fræðslunnar
(Kristín Elva Viðarsdóttir, 2006).
Eins og með flestar rannsóknir eru nokkrar
takmarkanir á þeim ályktunum sem draga má
af niðurstöðum rannsóknarinnar. Þess ber að
gæta að einungis einn sérfræðingur sá um
fræðsluna um málefni sam- og tvíkynhneigðra.
Mögulegt er að áhrifin megi að hluta til tengja
sérfræðingnum sjálfum frekar en innihaldi
fræðslunnar. Skipulagi fræðslunnar var hins
vegar fylgt mjög nákvæmlega. Ekki er heldur
hægt að útiloka að viðhorf og þekking kennara
í tilraunahópi hafi breyst við það eitt að hafa
samneyti við sérfræðing á sviði hinsegin fræða
meðan fræðslan fór fram. Annar vandi sem
fylgir rannsóknarsniðum af þessu tagi er að
erfitt var að koma í veg fyrir að kennararnir
í tilraunahópnum hneigðust til að þóknast
rannsakendum og yrðu því jákvæðari gagnvart
sam- og tvíkynhneigðum þar sem þeir svöruðu
spurningalistunum fljótlega eftir að fræðslan fór
fram. Við teljum það þó ólíklegt að þessi atriði
hafi fyrst og fremst valdið breytingunum því
mat á þekkingu sýnir að þátttakendur meðtóku
efnið, sem er forsenda viðhorfsbreytinga
(Ajzen, 2002; Altmeyer, 2001).
Það er einnig bagalegt að ekki tókst að
para saman einstaklingsbundin svör flestra
þátttakenda þar sem ekki gekk að nota leyniorð
í þeim tilgangi. Þar af leiðandi var heldur ekki
hægt að nota þær tölfræðiaðferðir sem veittu
mestan tölfræðilegan styrk til þess að meta
áhrif skipulögðu fræðslunnar. Hins vegar voru
áhrifsstærðirnar meðalstórar eða stórar, sem
bendir til að breytingar hjá tilraunarhópi kunni
að hafa áhrif á viðhorf til sam- og tvíkynhneigra
nemenda. Þó svo að um 80% kennara í tilrauna-
hópi og um 60% í samanburðarhópi hafi tekið
þátt í báðum fyrirlögnum reyndist mögulegt
að tryggja það að allir sömu kennararnir sem
svöruðu spurningalistunum í forprófuninni
svöruðu þeim þegar fræðslunni var lokið. Þetta
var mikilvægt þar sem ekki tóku allir þátt í
báðum fyrirlögnum. Þær tölfræðilegu prófanir
sem mögulegt var að gera sýna að fram kom
marktækur munur á öllum þáttum sem metnir
voru hjá samanburðar- og tilraunahópi og
styrkir það þá túlkun að fræðslan hafi skilað
þeim árangri sem stefnt var að. Eins og áður
hefur verið nefnt var fræðsluefnið sem notað
var í rannsókninni unnið út frá fræðsluefninu
sem Butler (1999) notaði í sinni rannsókn.
Í framhaldi af umræðunni um jákvæð viðhorf
við upphaf rannsóknarinnar er mikilvægt að
geta þess að viðhorf sem mæld voru með
MHS–kvarðanum sem metur kynhneigðarhroka
voru tiltölulega jákvæð hjá bæði tilrauna- og
samanburðarhópnum við upphaf rannsóknar-
innar. MHS–kvarðinn sem saminn var
af Raja og Stokes (1998) fyrir bandarískar
aðstæður hafði aldrei áður verið notaður á
Íslandi. Hugsanlega er mælitæki sem samið
var fyrir bandarískar aðstæður fyrir áratug
ekki ákjósanlegasta mælitækið fyrir íslenskar
aðstæður í dag. Þar sem enginn staðlaður
mælikvarði er til sem metur kynhneigðarhroka
væri það verðugt verkefni að endurskoða
MHS–kvarðann og laga hann enn betur að
íslenskum aðstæðum til þess að gera hann betur
hæfan til að meta kynhneigðarhroka á Íslandi.
Í þessari rannsókn eru erlend mælitæki þýdd
og staðfærð. Niðurstöðurnar gefa til kynna að
heildstæðara og ítarlegra próffræðilegt mat,
sérstaklega á kynhneigðarhrokakvarðanum þar
sem hugað er betur að íslenskum sérkennum
þeirrar hugsmíðar sem meta á, þurfi að fara fram
(sjá t.d. Sigurgrím Skúlason, 2005). Þó svo að
viðhorfin hafi mælst tiltölulga jákvæð bæði hjá
tilrauna- og samanburðarhópnum við upphaf
rannsóknarinnar var samt sem áður svigrúm
fyrir jákvæða breytingu á viðhorfunum. MHS–
kvarðinn var því nægilega næmur til að greina
breytingu á viðhorfunum og þjónaði þannig í
meginatriðum tilgangi rannsóknarinnar þó að
um tiltölulega litla dreifingu væri að ræða í
svörum þátttakenda.
Niðurstöður rannsóknarinnar gefa vísbend-
ingar um viðhorf starfandi grunnskólakennara
á Íslandi til sam- og tvíkynhneigðra. Almennt
séð benda þær til þess að viðhorf, eins og
Áhrif fræðslu á viðhorf kennara til sam- og tvíkynhneigðra