Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Page 141
141
The King of Kings en það var við undirbúning hennar sem fyrst var komið
á beinum samskiptum á milli MPPDA og samtaka bandarískra gyðinga.
Varð þeim eitthvað ágengt og fengu þeir til að mynda samþykkt að ákveð-
in atriði yrðu klippt út úr 1928-útgáfunni auk þess sem Hays-skrifstofan
lofaði að dreifa myndinni ekki í löndum þar sem gyðingar sættu ofsóknum.
En líkt og Felica Herman hefur bent á má greina af framleiðslusögu The
King of Kings að „þrátt fyrir mikinn fjölda gyðinga í Hollywood, höfðu
bandarískir gyðingar ekki yfir að ráða sömu ítökum í kvikmyndaiðnaðin-
um og aðrar trúarstofnanir og þá sérstaklega bandarískir kaþólikkar“.13
The King of Kings er því afurð átaka ólíkra stofnana auk þess sem fram-
leiðsla hennar átti eftir að móta samskipti þeirra og Hollywood um langt
skeið. Þá ber að hafa í huga að viðleitni kvikmyndaiðnaðarins til að skapa
sátt um framleiðslu sína var ekki tilkomin af auðmýkt í garð guðdóms-
ins heldur fyrst og fremst von um bætt viðskiptaumhverfi með tilheyr-
andi fjárhagslegum ávinningi. Það er því ákveðin írónía fólgin í því að
bæði framleiðslufyrirtæki myndarinnar, DeMille Pictures Corporation, og
dreifingaraðilinn, Pathé Exchange, lögðu upp laupana stuttu síðar og nutu
aldrei góðs af stúdíókerfinu sem malaði kvikmyndaverunum gull fram á
sjötta áratuginn. Cecil B. DeMille sjálfur átti þó eftir að setja mark sitt á
stúdíóárin, og þá ekki síst með gerð fjölmargra epískra stórmynda í anda
The King of Kings.
Cecil B. DeMille og epíska stórmyndin
Ef The King of Kings er brennd sögulegum og samfélagslegum uppruna
sínum ber hún líka kennimark „skapara“ síns Cecils B. DeMille og kvik-
myndagreinarinnar sem hann átti meiri þátt í að þróa en aðrir kvikmynda-
gerðarmenn – epísku stórmyndarinnar (e. the epic). Hann leikstýrði sinni
fyrstu mynd The Squaw Man (1914) á sama tíma og lengri myndir tóku að
leysa þær styttri af hólmi, og það var kannski aðeins D. W. Griffith sem
lék mikilvægara hlutverk í þeim umskiptum. DeMille átti stóran þátt í að
móta Paramount-kvikmyndaverið á upphafsárum þess, og olli mynd hans
The Cheat (1915) t.a.m. straumhvörfum í lýsingu og hafði víðtæk áhrif.
Undir lok áratugarins nutu svo mikilla vinsælda léttúðugar gamanmyndir
sem hann gerði um samskipti kynjanna, t.d. Don’t Change Your Husband
13 Felicia Herman, „‘The most dangerous anti-semitic photoplay in filmdom’:
American Jews and The King of Kings (DeMille, 1927)“, The Velvet Light Trap,
haust/2000, bls. 22.
Að KVIKMYNDA GUðDÓMINN