Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Page 9
9
Í hrakningasögunni „Sviplegur atburður“ rekur Pálmi Hannesson sögu
drengs sem varð úti á Strandarheiði árið 1929.1 Í lýsingu sinni tekur höf-
undur sérstaklega fram að ekki hafi verið hlaðin nein varða á þeim tíma til
að minnast örlaga drengsins og staðarins þar sem atburðirnir urðu. Engu að
síður hefur saga hans varðveist og þannig hefur minningin náð að lifa fram
á þennan dag. Þetta má einkum þakka því að Pálmi taldi þess vert að færa
munnmælasögu í letur, en hann sá sérstaka ástæðu til þess að undirstrika
áreiðanleika frásagnarinnar: „Heimild sögu þessarar er að mestu fengin frá
Ágústi Guðmundssyni, bónda að Halakoti á Vatnsleysuströnd.“2
Önnur saga, sem ber heitið „Mannskaðinn á Fjallabaksvegi“, greinir
frá hrakföllum fjögurra ferðalanga árið 1868. Undir lok frásagnarinnar
beinir Pálmi Hannesson orðum sínum beint til lesandans: „En þú, vegfar-
andi, sem ferð um Fjallabaksveg, legðu krók á leið þína og komdu við
á nafnlausu öldunni suður af Kaldaklofi. Þar hefur íslenzk alþýða skráð
lítinn þátt úr langri sögu sinni og staðfest hann með dauða fjögurra ferða-
manna.“3 Í þessu tilviki var þeim sem urðu úti ekki heldur hlaðin nein
varða, enda fundust bein þeirra ekki fyrr en áratug eftir atburðina. Saga
þeirra varðveittist þó í munnmælum og síðar á prenti og í dag stendur uppi
minnistafla um örlög þeirra, einmitt á þeim stað sem Pálmi lýsti í texta
sínum.
1 Pálmi Hannesson, „Sviplegur atburður“, Villa á öræfum – Allein durch die Einöde,
íslensk-þýsk tvímála útgáfa á hrakningasögum Pálma Hannessonar rektors, þýð.
Marion Lerner, Reykjavík: Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungu-
málum við Háskóla Íslands, Háskólaútgáfan, 2007, bls. 258–265.
2 Sama rit, bls. 264.
3 Pálmi Hannesson, „Mannskaðinn á Fjallabaksvegi“, Villa á öræfum – Allein durch
die Einöde, bls. 198–221, hér á bls. 220.
Marion Lerner
Staðir og menningarlegt minni
Um ferðalýsingar og vörður
Ritið 1/2013, bls. 9–28