Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Qupperneq 12
12
unina og framhaldið í forgrunn.“11 Þannig hverfur hin hliðin, þ.e.a.s. við-
takan eða afturhvarfið sem teygir sig yfir rofið. Um leið missa menn sjónar
á skuggahlið endurminningarinnar: gleymskunni, bælingunni, útþurrk-
uninni o.s.frv., en án hennar væri minningin (eins og áður er nefnt) ekki
möguleg.
Rofið sem minnismenningin hverfist um er þó ekki í öllum tilvikum
dauðinn. Einnig getur verið um að ræða huglægari rof innan menningar
og samfélags, líkt og t.a.m. trúskipti, nýja samfélagsskipan, nýja valdaform-
gerð eða pólitískar aðstæður – og vitaskuld geta einnig komið til rof vegna
stríðsrekstrar, hamfara, víðtækra breytinga á vistkerfi eða fólksflutninga
(hvort sem fólk neyðist til þeirra eða ekki). Ennfremur geta menn skynjað
rof frá rótgrónum lífsháttum, viðteknum hugmyndum og hversdagslegum
venjum, en slíkt má gjarnan rekja til hraðra þjóðfélagsbreytinga eins og
verða t.a.m. með nútímavæðingu. Mestu skiptir að í minnismenningu eru
rofið og samfellan órjúfanlega tengd.
Menningarlegt minni
Þegar leitast er við að skilja og beita hugtakinu menningarlegt minni,
sem komið er frá Jan og Aleidu Assmann, er gagnlegt að byrja á að greina
menningarlegt minni frá svokölluðu samskiptaminni (sem varast ber að
rugla saman við hugtakið „mémoire collective“ eða „sameiginlegt minni“
sem komið er frá Maurice Halbwachs).12
Samskiptaminnið (þ. kommunikatives Gedächtnis) afmarkast við tiltek-
inn hóp handhafa. Jan Assmann tilgreinir kynslóðaminnið (þ. Genera-
tionengedächtnis) sem lýsandi dæmi um samskiptaminni.13 Það fellur með-
limum kynslóðar í skaut vegna þess að þeir lifa ákveðna atburði og minnið
hverfur á náttúrulegan hátt með þessum meðlimum. Samskiptaminnið
geymir minningar sem tengjast nýliðinni fortíð (e. recent past), en alla jafna
er gert ráð fyrir að hún spanni áttatíu til hundrað ár. Þessi tímarammi
11 „Denn der Begriff der Tradition verschleiert den Bruch, der zum Entstehen von
Vergangenheit führt, und rückt dafür den Aspekt der Kontinuität, das Fortschrei-
ben und Fortsetzen, in den Vordergrund.“ Sama rit, bls. 34.
12 Jan Assmann, Das kulturelle Gedächtnis, bls. 46. (Guðmundur Hálfdanarson hefur
fjallað ítarlega um sameiginlega minnið út frá kenningum Halbwachs, sjá m.a.:
Guðmundur Hálfdanarson. „Sameiginlegar minningar og tilvist íslenskrar þjóð-
ar“, Íslenska söguþingið 30. maí – 1. júní 2002, Ráðstefnurit, 2. bindi, ritstj. Erla
Hulda Halldórsdóttir, Reykjavík: Sagnfræðingafélag Íslands, Sögufélag og Sagn-
fræðistofnun Háskóla Íslands, 2002, bls. 302–318.)
13 Sjá sama rit, bls. 50 og áfram.
MaRion LeRneR