Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Page 27
27
geta hlaðist upp nokkur lög minninga á einum og sama staðnum, eins og
oft gerist með minnisvarða sem reistir voru fyrir löngu á stöðum minning-
arinnar og hafa öðlast hlutverk í lífi síðari kynslóða.49 Þegar minningin er
með öllu horfin er þó engin stoð í staðnum. Einföld grjótvarða getur merkt
hann, en hún þarfnast minnis einstaklinga eða hóps til að frásagnir geti
orðið til. Samskiptaminnið getur lagt til munnmælasögur, eins og raunin
er í tilviki hrakningasagnanna. Menningarlega minnið getur varðveitt þær
til frambúðar og í sameiningu geta geymsluminnið og vinnsluminnið sótt
frásagnirnar í djúpið, dregið þær upp á yfirborðið og haldið þeim þar, á
meðan þær gagnast sjálfsmynd tiltekins hóps. Að því loknu geta þær þok-
ast aftur í bakgrunninn, uns þeirra er þörf aftur og þær eru virkjaðar á ný
undir öðrum formerkjum.
Benedikt Hjartarson þýddi
Ú T D R Á T T U R
Staðir og menningarlegt minni
Um ferðalýsingar og vörður
Í greininni er gengið út frá tveimur gamalgrónum miðlum innan ferðamenningar,
grjótvörðum og ferðalýsingum, og spurt hvaða hlutverki þeir gegni fyrir minnis-
menningu Íslendinga. Menningarlegt minni er skilgreint og útskýrt hvernig
geymsluminnið og vinnsluminnið virka saman í síbreytilegu kerfi. Rök eru færð fyrir
því að ferðalýsingar geti með frásögnum sínum fært minningar úr hinu hverfula
samskiptaminni yfir í hið endingarbetra menningarlega minni og þannig tekið við
af hinum þöglu en staðbundnu grjótvörðum. Forsenda þess er aftur á móti að inn-
takið sé nátengt sjálfsmynd og minningarsmíð hópsins, sem í þessu tilfelli er íslenska
þjóðin á ákveðnu tímabili. Á stöðum minninga koma tími og rúm saman á sérstæðan
hátt og eru sveipuð vissri helgi.
Lykilhugtök: grjótvörður, ferðalýsingar, menningarlegt minni, geymsluminni,
vinnsluminni, staðir minningar, samskiptaminni, sjálfsmynd
49 Sjá umfjöllun um minnismerkið í Enniskillen á Norður-Írlandi: Graham Dawson,
„Cultural Memory, Reconciliation, and the Reconstruction of the Site of the
‚Poppy Day‘ Bomb in Enniskillen, Northern Ireland“, The Cultural Reconstruction
of Places, ritstj. Ástráður Eysteinsson, Reykjavík: University of Iceland Press, 1996,
bls. 44–60.
STAðIR OG MENNINGARLEGT MINNI